Veiðifélag Kjósarhrepps hefur framlengt leigusamning um Laxá í Kjós við einkahlutafélagið Höklar ehf. Þar ræður ríkjum Haraldur Eiríksson. Samningurinn er framlengdur út sumarið 2030 og mun Haraldur og hans fólk því áfram annast rekstur og sölu á Kjósinni.
Halli hefur verið viðloðandi Kjósina frá því á síðustu öld og ber ábyrgð á ófáum löxunum sem viðskiptavinir hafa veitt þar í gegnum árin. Hann byrjaði þar í leiðsögn ungur að árum og segist sjálfur hafa „alist upp á bökkum Laxár í Kjós.“
Halli tók við Kjósinni í október 2020 og var hans fyrsta rekstrarár sumarið 2021.
„Hér ríkir góður andi og samstarfið við landeigendur hefur verið mjög gott. Við höfum séð misjafna veiði undanfarin ár og munum sjálfsagt sjá það áfram. Ég er hins vegar mjög spenntur fyrir næsta ári og sannfærður um að það verður betra en í sumar. Veiðin var frekar dræm í ár en það var gaman að sjá hversu mikið af laxi reyndist á svæðinu þegar við fengum loksins rigningu. Það kom skemmtilega á óvart hversu mikið af fiski gekk aftur niður úr Meðalfellsvatni og svo kom mér einnig á óvart allur laxinn sem var í Þrengslunum, ofarlega í Kjósinni.
Þannig að við förum bjartsýn inn í næsta ár og það er tilhlökkunarefni að halda áfram að halda utan um Kjósina,“ sagði Halli í samtali við Sporðaköst.
Framlengdur samningur er á sömu nótum og verið hefur undanfarin ár.
| Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
|---|---|---|---|
| 100 cm | Hrútafjarðará | Jón Tómas Rúnarsson | 23. september 23.9. |
| 102 cm | Ytri Rangá | Skjöldur Pálmason | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Miðá í Dölum | Eyrún Ýr Guðmundsdóttir | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 18. september 18.9. |
| 101 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 17. september 17.9. |
| 105 cm | Hofsá | Sveinn Blöndal | 15. september 15.9. |
| 106 cm | Laxá í Aðaldal | Sigvaldi A. Lárusson | 14. september 14.9. |