Starir leigja Flókadalsá til tíu ára

Söguleg stund í veiðihúsinu við Flókadalsá. Samningur undirritaður til tíu …
Söguleg stund í veiðihúsinu við Flókadalsá. Samningur undirritaður til tíu ára. Frá vinstri: Benedikt Líndal, stjórnarmaður, Haraldur Sigurðsson, stjórnarmaður. Dagbjartur Arilíusson, formaður er við enda borðsins og Ingólfur Ásgeirsson og Arndís Kristjánsdóttir hægra megin. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Veiðifélag Flókadalsár og Starir ehf undirrituðu í gær leigusamning um Flókadalsá til tíu ára. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi þriggja stanga á er leigð til félags en fram til þessa hafa landeigendur séð um að selja ána.

Ingólfur Ásgeirsson og Arndís Kristjánsdóttir, eigendur Stara ehf mættu í Borgarfjörðinn í gærkvöldi og gengu frá samningnum um Flókadalsá í veiðihúsinu.

„Þetta er ótrúlega spennandi verkefni og við Dísa erum virkilega ánægð og stolt að vera treyst fyrir þessari perlu í Borgarfirðinum. Við hlökkum til samstarfs við veiðifélagið og alla landeigendur í dalnum,“ sagði Ingólfur Ásgeirsson í samtali við Sporðaköst.

Hann viðurkennir að þetta séu mikil tímamót. „Ég veit ekki til þess að það sé nokkur önnur á af þessu kaliberi sem aldrei hefur verið leigð út. Þetta er fyrsti leigusamningur sem er gerður um Flóku. Hún hefur verið rekin af veiðifélaginu frá því að veiðar í henni hófust. Þannig að þetta er söguleg stund og tímamóta samningur.“

180 gráðu beygja

Ingólfur segist lengi hafa haft augastað á Flókadalsá og það þó að hann hafi aldrei veitt hana. Flókadalsá er líkast til síðasta náttúrulega landsþekkta áin sem hefur leyft maðkveiði og veiða og sleppa hefur ekki verið ástundað. En nú eru breytingar framundan í Flókadalsá næsta sumar. „Áin verður hér eftir eingöngu veidd á flugu og það verður skylduslepping á öllum tveggja ára laxi, eins og tíðkast í nánast öllum ám. Við verðum með mjög hóflegan kvóta á laxi sem menn geta tekið með sér. Hún fer ekki alveg í veiða og sleppa en kvótinn verður hóflegur og miðast við laxa undir 67 sentímetrum. Þegar komið er fram í september þá verður öllum laxi sleppt.“

Hvernig heldur þú að gömlu viðskiptavinirnir taki í þessar breytingar?

„Ég tel nú að flestir muni taka þessu vel. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem maður kemur að svona breytingum. Við gerðum breytingar í Blöndu og Brennunni þegar við tókum við þeim svæðum fyrir tíu árum síðan. En auðvitað munu menn máta sig misjafnlega við þetta. En nú árið 2025 þá vita flestir að flestar ár eru reknar með þessum hætti. Við ætlum að spjalla við þá sem hafa veitt í Flókadalsá og ég vona að sem flestir taki þessu vel. En vissulega eru þetta miklar breytingar og sitt sýnist hverjum. Við erum að taka 180 gráðu beygju frá því sem verið hefur.“ 

Telur Flóku eiga mikið inni

Hversu spennandi er þess á?

„Mér finnst hún gríðarlega spennandi. Það verður svo áhugavert að sjá hvað hún á inni og hvað hún á eftir að leysa úr læðingi við þessar breytingar. Ég held að hún eigi mikið inni þegar bróðurpartur laxins fær að hrygna.“

Fram til þessa hefur Flóka verið veidd með maðki og menn hafa séð um sjálfir í veiðihúsi. Nú segir nýr leigutaki að ráðast eigi í breytingar með húsakost. Í fyrsta áfanga verður ráðist í endurbætur á veiðihúsinu og hefjast þær í haust. „Jafnframt verður ráðist í byggingu á starfsmannahúsi sem mun fyrst í stað þjóna veiðimönnum. Þar verða tvö herbergi og baðherbergi. Við náum ekki að ráðast í allar þær framkvæmdir sem við ætlum í fyrr en haustið 2026. Þá munum við byggja nýja svefnálmu fyrir veiðimenn. Þar verða þrjú 25 fermetra herbergi með aðstöðu sem er sambærileg við það sem menn þekkja í nútíma veiðihúsum. Meðfram þessu verða einnig tvö herbergi í boði þegar fjölskyldur og stærri hópar koma til okkar.“

Ingólfur segir að boðið verði upp sjálfsmennsku fram í miðjan júlí en þá taki við mánaðar tímabil þar sem boðið verður upp á fulla þjónustu eins og þekkist í stærri veiðihúsum. Þá verður boðið upp á fullt fæði og leiðsögn við ána. 

Flókadalsá er eins og fyrr segir þriggja stanga á og hefur gefið veiði allt frá 181 laxi sumarið 1981 upp í 937 laxa sumarið 2013. Í ár er skráð veiði í Flóku 210 laxar en fyrra var hún í 414 löxum.

Starir ehf leigja og reka Þverá/Kjarrá, Straumana, Brennuna og Víðidalsá og bæta nú Flókadalsá í safnið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Hrútafjarðará Jón Tómas Rúnarsson 23. september 23.9.
102 cm Ytri Rangá Skjöldur Pálmason 21. september 21.9.
100 cm Miðá í Dölum Eyrún Ýr Guðmundsdóttir 21. september 21.9.
100 cm Grímsá Jón Jónsson 18. september 18.9.
101 cm Miðsvæðið Laxá í Aðaldal Helgi Jóhannesson 17. september 17.9.
105 cm Hofsá Sveinn Blöndal 15. september 15.9.
106 cm Laxá í Aðaldal Sigvaldi A. Lárusson 14. september 14.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert