Vísindamenn við norsku hafrannsóknastofnunina hafa sýnt fram á að hnúðlax og Atlantshaflax geta blandast. Fyrstu slíku blendingarnir, sem vitað er um urðu til í rannsóknaraðstöðu hjá stofnuninni.
Fyrir rúmlega tveimur árum ákvað fiskifræðingurinn Monica Solberg að kanna hvort hnúðlax gæti blandast öðrum tegundum laxfiska og framleitt lifandi afkvæmi. Hún gerði tilraun með bæði hrogn og svil frá hnúðlaxi og blandaði þeim saman við sjóbirting, urriða, regnbogasilung og lax. Aðeins ein af þessum tilraunum bar árangur og það var þegar hrogn frá Atlantshaflaxi var frjóvgað með svili hnúðlax.
Þekkt er í náttúrunni að lax og sjóbirtingur geta blandast og hafa slíkir blendingar veiðst hér á landi og kallaðir laxbirtingar.
„Við vildum kanna hvort hnúðlaxinn gæti blandast öðrum tegundum og hvort slík krossæxlun gæti leitt til þess að blendingar gætu lifað og vaxið til að verða fullþroska einstaklingar,“ segir Monica Solberg í frétt á heimasíðu norsku hafrannsóknastofnunarinnar – Havforskningstittuet. Hún bætir við að þessi tilraun hafi líka verið gerð til að kanna hvort mikil aukning á hnúðlaxi í norskum ám gæti leitt til aukinnar áhættu á blöndun tegunda.
Ýmsir kokteilar voru hrærðir í þessari tilraun en aðeins ein blanda leiddi til þess að seiði klöktust og lifðu og fiskur stækkaði. Það var þegar hrogn frá laxi voru frjóvguð með svilum frá hnúðlaxi. Í öllum hinum tilraununum var notast við hrogn frá hnúðlaxi og svil frá laxi og urriða. Þar varð ekki frjóvgun.
Það kom Monicu á óvart hversu hátt hlutfall hrogna frjóvgaðist og nú stendur fyrir dyrum að kanna hvort svil úr hnúðlaxi geti frjóvgað hrogn annarra tegunda. Þar er horft til sjóbirtings, urriða og regnaboga.
Nú er verið að skoða einkenni þessara blendinga sem hafa vaxið. Þar hefur ýmislegt forvitnilegt komið í ljós. Hnúðlaxinn er með svarta tungu og eitt af einkennum hans eru doppur á sporði. Nokkrir af blendingunum bera ekki þessi einkenni. Eru með hvíta tungu og ekki bletti á sporði. Þá er misjafnt hversu hratt þeir hafa vaxið. Flestir taka útlitið frá móðurinni en vaxtarhraða frá föðurnum. Hnúðlaxinn vex mun hraðar en laxinn.
Eins og fyrr segir er þekkt að lax og sjóbirtingur geti blandast. En það sem hefur einkennt slíka blendinga er að þeir eru ófrjóir og fjölga sér því ekki. Monica segist búast við því að það sama verði uppi á teningnum með þessa blendinga en það mun tíminn leiða í ljós. Áfram verður fylgst með hvernig þessir fiskar þroskast og dafna.
Monica telur litlar líkur á svona blöndun geti átt sér stað í náttúrunni. Þar er horft til þess að hnúðlax líkur sinni hrygningu fyrr en laxinn. Hnúðlax er að hrygna í ágúst og fram í september á meðan að laxinn er aðeins seinna á ferðinni. Október og fram í nóvember er hans hrygningartími. Þó eru til dæmi um að hnúðlax hrygni ekki fyrr en í október og slík hegðun hefur verið staðfest í Rússlandi.
Því næst er það spurning um hrygningu annarra laxfiska eins og urriða og sjóbirtings. Getur þar verið hætta á blöndun? Ekki er vitað hvort hængur hnúðlax getur frjóvgað hrogn urriða eða sjóbirtings og verður það nú rannsakað.
Hnúðlaxinn sem er af ætt Kyrrahafslax hættir ekki að koma á óvart. Útbreiðsla hans í Evrópu hefur verið með ólíkindum og mátti sjá á Íslandi í sumar að einkum tvær ár, Haukadalsá og Laxá í Dölum fengu stórar göngur af hnúðlaxi. Tilraunir Monicu Solberg eru áhugaverðar og nauðsynlegt er að afla þekkingar á þessum þætti. Hver framtíð hnúðlaxins verður í evrópskum ám er erfitt að segja til um. Hann heldur áfram að koma okkur á óvart. Lífsferill hans er tvö ár og því gengur hann á tveggja ára fresti. Næsta hnúðlaxaár er 2027. Vonlaust er að spá fyrir um hvernig það verður. Í Haukadalsá og Laxá meira en tífaldaðist magnið af hnúðlaxi í sumar miðað við 2023.
| Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
|---|---|---|---|
| 100 cm | Hrútafjarðará | Jón Tómas Rúnarsson | 23. september 23.9. |
| 102 cm | Ytri Rangá | Skjöldur Pálmason | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Miðá í Dölum | Eyrún Ýr Guðmundsdóttir | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 18. september 18.9. |
| 101 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 17. september 17.9. |
| 105 cm | Hofsá | Sveinn Blöndal | 15. september 15.9. |
| 106 cm | Laxá í Aðaldal | Sigvaldi A. Lárusson | 14. september 14.9. |