Stórfljótin á Suðurlandi gáfu fína veiði í sumar og mun betri en í fyrra. Báðar Rangárnar voru með mun betri veiði. Þá var mikið af laxi í Þjórsá og var það staðfest bæði með veiði en ekki síst það mikla magn sem gekk í gegnum teljarann við Búða.
Ytri-Rangá gaf 5.590 laxa. Það er mun betri veiði en í fyrra þegar hún endaði í 4.601 laxi. Það munar svo sannarlega um ríflega þúsund laxa veiði. Þetta er besta veiðin í Ytri frá því 2017 þegar hún gaf 7.451 lax.
Sömu sögu má segja með Eystri-Rangá. Veiðin þar var mun betri í sumar en í fyrra. Hún endaði í 2.870 löxum á móti 2.202 í fyrra. Þetta var besta veiðiár í Eystri frá því 2022.
Þá var mikið magn af fiski í Þjórsá í sumar. Það endurspeglaðist ekki í veiðitölum í Urriðafossi. Lokatalan þar er 716 laxar. Eins og það kann að hljóma undarlega þá var vatnsleysi að stórum hluta um að kenna. Þetta staðfestir Stefán Sigurðsson, leigutaki. „Þegar er minna vatn þá gengur fiskurinn ekki með landinu í jafn miklum mæli og þegar er mikið vatn. Þá er erfiðara að ná á hann. Við sjáum hins vegar á tölum í teljaranum við Búða að yfir tvö þúsund laxar fóru þar í gegn,“ sagði Stefán í samtali við Sporðaköst.
Vestanvert landið, hvort sem var Borgarfjörður eða Húnavatnssýslur áttu magurt sumar í laxveiðinni og var veiðin sú minnsta sem Hafrannsóknastofnun hefur skráð frá árinu 1974 þegar búið er að leiðrétta fyrir endurveiði og taka burt veiði í þeim ám sem byggja alfarið á seiðasleppingum.
Veitt var í Rangánum fram til 20. október. Stefán Sigurðsson sem heldur utan um sölu og rekstur á Ytri-Rangá í gegnum félag þeirra hjóna IO veiðileyfi, segist mjög sáttur við sumarið. „Þetta var alveg frábært. Það er svo gaman í þessu þegar vel gengur.“
Þá er sami tónn í Jóhanni Davíð Snorrasyni, framkvæmdastjóra Kolskeggs, sem annast sölu á veiðileyfum og umsjón með Eystri-Rangá og fleiri ám á Suðurlandi. Allar þær ár byggja fyrst og fremst á seiðasleppingum.
Hólsá Austurbakki 471. Í fyrra 295.
Affall 156. í fyrra 100.
Þverá í Fljótshlíð 56. Í fyrra 58.
„Það er aukning á öllum svæðum nema í Þverá. Affallið var í hundrað í fyrra og það er smá aukning. Ekki kannski mikil en við þiggjum hana. Eystri bætti sig mikið milli ára og það var greinilega mun meira af fiski í henni miðað við 2024. Ágúst var erfiður hjá okkur og haustið líka. Ef við hefðum verið heppnari með veðurlag held ég að við hefðum fengið enn meiri aukningu. En veðurlag er víst ekki eitthvað sem við stjórnum,“ sagði Jóhann Davíð.
Þá nefndi hann einnig að Hólsá Austurbakki hefði farið úr 295 löxum í fyrra í 471 lax í sumar. Kom á daginn að mjög góðar heimtur voru á laxi úr tjörnum sem eru í nágrenni við Ármót. „Það er búið að vera alveg pakkað af fiski þar seinnipart sumars.“
Í sumar varð sú breyting á að Jóhann Davíð og hans menn tóku yfir seiðasleppingar í árnar á svæðinu. „Við vönduðum okkur alveg svakalega. Vorum með þessi seiði í bómull. Ég þekki ekki hvernig var staðið að þessu áður en við gerðum þetta eins vel og við gátum,“ upplýsti Jóhann Davíð. Forvitnilegt verður að fylgjast með heimtum næsta sumar í Eystri í þessu ljósi.
Það vekur athygli að hafbeitarárnar eins og Ytri og Eystri eru kallaðar virðast vera að fá betri heimtur en ár víðast hvar. Stóra breytan sem þarna kann að hafa áhrif er að seiðin í Rangánum þurftu ekki að takast á við kalda vorið sem gerði villtum laxaseiðum erfitt fyrir í náttúrunni vorið 2024 þegar þau voru að undirbúa að ganga til sjávar. Seiðunum í hafbeitaránum er sleppt síðar og voru þau í góðu yfirlæti þar til skilyrði til sleppinga voru metin hagstæð.
| Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
|---|---|---|---|
| 100 cm | Hrútafjarðará | Jón Tómas Rúnarsson | 23. september 23.9. |
| 102 cm | Ytri Rangá | Skjöldur Pálmason | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Miðá í Dölum | Eyrún Ýr Guðmundsdóttir | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 18. september 18.9. |
| 101 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 17. september 17.9. |
| 105 cm | Hofsá | Sveinn Blöndal | 15. september 15.9. |
| 106 cm | Laxá í Aðaldal | Sigvaldi A. Lárusson | 14. september 14.9. |