Norðurárbændur og Rafn Valur Alfreðsson hafa framlengt og skrifað undir nýjan samning um rekstur Norðurár. Núgildandi samningur er út næsta ár en nýr samningur er til 2031. Norðurá hefur um nokkurt skeið verið rekin með öðru sniði en flestar af stóru laxveiðiánum. Ekki er um að ræða leigusamning heldur annast félag Rafns Vals rekstur árinnar og sölu á veiðileyfum. Svokölluð umboðssala. Áður fyrr var Norðurá leigð út og föst umsamin upphæð greidd fyrir hvert veiðitímabil. Nú hefur Norðurá verið í umboðssölu síðari ár og endurnýjaður samningur bendir til þess að þetta fyrirkomulag henti vel í Norðurárdalnum.
„Já. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel. Á undan Rafni var Einar Sigfússon og þetta hefur reynst vel. Við erum fyllilega upplýst um allt sem gerist og fáum greitt jafn óðum. Við samþykkjum verðskrá árlega og höfum aðgang að öllum upplýsingum. Framlenging á samstarfi við núverandi rekstraraðila var samþykkt einróma,“ upplýsti Guðrún Sigurjónsdóttir, formaður Veiðifélags Norðurár í samtali við Sporðaköst.
Félagsfundur í veiðifélaginu samþykkti nýja samninginn í gærkvöldi á fundi í veiðihúsinu við Norðurá.
Það var eftir því tekið þegar Norðurá valdi að fara út úr hefðbundnu fyrirkomulagi sem hafði verið lengi við líði, að leigja ána út. Aðspurð hvort þetta hafi ekki verið stór ákvörðun að fara yfir í umboðssölu, viðurkennir hún að það hafi verið heilmikil breyting. „Einhvern veginn fannst mér að menn væru tilbúnir að prófa þetta svona.“
Guðrún segir að það hafi komið fyrir í gegnum árin, og ekki bara í Norðurá, að menn hafi gert samninga og reynst erfitt að standa við þá og þurft hafi að endursemja. Hún segir marga hafa verið orðna hvekkta á því. „Í þessu fyrirkomulagi fáum við greitt jafn óðum frá rekstraraðilanum, eftir því hvernig gengur að selja. Þannig að við vitum í sjálfu sér alltaf hvað við erum með í höndunum. Svona samningar byggja fyrst og fremst á gangkvæmu trausti samningsaðila og það hefur verið gott. Við vitum líka hvernig áin er að gera sig og erum upplýst um allt í kringum ána. Mér finnst það mikill kostur að veiðifélagið sé upplýst að fullu. Það eru allir ánægðir með þetta samstarf og félagsfundurinn afgreiddi þetta samhljóma,“ sagði Guðrún.
Mikil tímamót eru hjá Veiðifélagi Norðurár á næsta ári. Félagið heldur þá upp á hundrað ára afmæli en það var stofnað þriðja febrúar 1926. Guðrún segir að þeim tímamótum verði fagnað með ýmiskonar hætti. Eitt af því sem stefnt er að er að kynna landeigendum betur ána. „Við ætlum að skipuleggja göngur þannig að landeigendur geti betur kynnst Norðuránni Margir þekkja helst sitt nærumhverfi þegar kemur að ánni en nú ætlum við að bjóða upp á að okkar fólk geti séð meira af henni og veiða einn dag. Hér hafa ekki þekkst bændadagar en við ætlum að veiða hana og kynnast betur í tilefni af þessum tímamótum. Rabbi er búinn að bjóða okkur gistingu og mat og þetta verður án efa mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. Norðurá er okkar stærsta auðlind hér í sveitinni,“ sagði Guðrún.
Nokkrar ár eru reknar með þessu fyrirkomulagi. Þannig er Ytri Rangá í umboðssölu og það kerfi var einnig tekið upp í Blöndu með nýjum samningi sem gerður var í fyrra. Óvíst er hvort þetta fyrirkomulag verður tekið upp í fleiri ám en vissulega hafa mörg veiðifélög opnað á að slík tilboð verði sendi inn þegar ár eru boðnar út. Með umboðssölusamningum verður áhætta skipt og það er eitthvað sem mörgum hugnast betur en að greiða leigu fyrir heilt veiðitímabil og mæta svo mögulega ófyrirséðum aðstæðum.
| Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
|---|---|---|---|
| 100 cm | Hrútafjarðará | Jón Tómas Rúnarsson | 23. september 23.9. |
| 102 cm | Ytri Rangá | Skjöldur Pálmason | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Miðá í Dölum | Eyrún Ýr Guðmundsdóttir | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 18. september 18.9. |
| 101 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 17. september 17.9. |
| 105 cm | Hofsá | Sveinn Blöndal | 15. september 15.9. |
| 106 cm | Laxá í Aðaldal | Sigvaldi A. Lárusson | 14. september 14.9. |