„Laxinum okkar leið illa með óværunni“

„Laxinum okkar leið illa þessa tvo mánuði sem óværan var í ánni,“ segir Skjöldur Orri Skjaldarson, yfirleiðsögumaður við Laxá í Dölum. Hann er gestur Sporðakastaspjallsins þar sem við höldum áfram að gera upp veiðisumarið 2025.

Laxá átti köflótt sumar. Þar eins og svo víða var búist við að stórlaxinn kæmi snemma og mikið af honum. Það gekk ekki eftir. Hins vegar mætti hnúðlaxinn snemma og það var mikið af honum. Skjöldur áætlar að allt að fjögur hundruð slíkir hafi verið í Laxá og enn fleiri gengið í Haukadalsá. Hann er ekki hrifinn af hnúðlaxinum og kallar hann óværu.

„Þetta sumar kom margt okkur á óvart hvað varðar hnúðlaxinn. Hann var sífellt á iði og ataðist í laxinum okkar,“ segir Skjöldur og hann er sannfærður um að vera hnúðlaxins hafði mikil áhrif á „laxinn okkar.“ Hann bendir á að takan hafi ekki orðið eðlileg fyrr en um það leiti sem hnúðlaxinn drapst í byrjun september. Það var vel að merkja áður en fór að rigna í Dölunum.

Skjöldur segir aðra óværu hafa gert við sig og þekkir hann dæmi um tvo meinta eldislaxa sem veiddust í Laxá en þeim var því miður sleppt. Hann furðar sig á að ekki hafi verið staðið við þær fyrirætlanir að vakta þær ár sem hafði verið talað um, þegar kemur að strokulöxum. Búið að var að ákveða árnar sem fylgjast átti með en ekkert varð af þeim áformum.

Níutíu sentímetra hængur úr lokahollinu í Laxá í Dölum. Jóhannes …
Níutíu sentímetra hængur úr lokahollinu í Laxá í Dölum. Jóhannes Jóhannesson fékk þennan í Lambastaðakvörn á tommu Sunray Shadow. Ljósmynd/Jóhannes

Það er hans mat að mjög mikilvægt sé að koma upp teljara og búnaði sem geti greint þessa fiska, eldislaxa og hnúðlaxa. Búið er að hanna og teikna það mannvirki og öll leyfi eru til staðar. Það vantar hins vegar fjármagn en Skjöldur segir að kostnaður við búnaðinn og umgjörðina sé á bilinu 40 til 50 milljónir. „Það er allt tilbúið. Ef fjármagn kemur væri þess vegna hægt að byrja á morgun,“ segir hann. 

Skjöldur átti samtöl við norska kafara sem ætluðu að freista þess að leita að eldislaxi í Laxá í Dölum en urðu frá að hverfa sökum aðstæðna. Hann óttast framtíðina þegar kemur að hnúðlaxinum. „Það hefur verið veldisvöxtur í hnúðlaxinum og við vitum ekkert um hann,“ segir hann. Hnúðlaxinn kemur annað hvert ár og fyrir tveimur árum var áætlað að 20 til 30 slíkir hefðu verið í Laxá. Í sumar voru þeir allt að fjögur hundruð.

Skjöldur er gestur Sporðakasta í dag og ræðir þar sumarið og þær áskoranir sem mættu veiðimönnum og leiðsögumönnum í Laxárdal.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Hrútafjarðará Jón Tómas Rúnarsson 23. september 23.9.
102 cm Ytri Rangá Skjöldur Pálmason 21. september 21.9.
100 cm Miðá í Dölum Eyrún Ýr Guðmundsdóttir 21. september 21.9.
100 cm Grímsá Jón Jónsson 18. september 18.9.
101 cm Miðsvæðið Laxá í Aðaldal Helgi Jóhannesson 17. september 17.9.
105 cm Hofsá Sveinn Blöndal 15. september 15.9.
106 cm Laxá í Aðaldal Sigvaldi A. Lárusson 14. september 14.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert