Skráðir voru 33 hundraðkallar á samnefndan lista hjá Sporðaköstum í sumar. Þetta er svipaður fjöldi og síðustu ár. Örugglega veiddust fleiri en þetta er sá fjöldi sem við gátum staðfest miðað við þær kröfur sem gerðar eru til að komast á listann.
Þó svo að veiðitölur hafi verið lægri en menn bjuggust við er ánægjulegt að sjá að stórlaxinn var að skila sér. Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hafrannsóknastofnun var þetta lélegasta ár í fjölda villtra laxa frá 1974 að menn fóru að taka þetta saman. Vissulega eru það bráðabirgðatölur og búið að leirétta fyrir seiðasleppingaám og endurveiði.
Laxá í Aðaldal var með flesta. Samtals sjö slíka stórfiska. Þó voru tveir þeirra á svokölluðu Miðsvæði. Athygli vekur að Miðfjarðará gaf fimm hundraðkalla. Þar eins og svo oft áður var Efri hluti Austurár með þá flesta.
Víðidalsá og Ytri Rangá eru með þrjá laxa meter eða stærri skráða. Vissulega var einn í Víðidalnum tvíveiddur en við leiðréttum ekki fyrir slíku. Ytri Rangá gaf fleiri í þessum stærðarflokki en við höfum þá ekki staðfesta. Sama má raunar segja um fleiri ár.
Kjarrá gaf tvo hundraðkalla og eru það einu fiskarnir í Borgarfirðinum í sumar sem við höfum staðfesta.
Gaman er að bera saman árin sem Sporðaköst hafa haldið listanum úti.
Ár Fjöldi hundraðkalla
2025 33
2024 16
2023 29
2022 30
2021 31
2020 44
Eins og sjá má af listanum hér að ofan koma fram sveiflur en meðaltal þessara ára er 30,5. Þetta eru sjaldgæfir og merkilegir fiskar og því að um að gera að vanda sig við að mæla þá. Eins við sögðum hér að ofan þá hafa án efa veiðst fleiri slíkir metfiskar. En til þess að komast á listann þarf að senda okkur upplýsingar og myndir. Sumarið 2025 er aðeins yfir meðaltalinu þessi sex sumur sem eru undir í þessum útreikningi.
Þessir 33 laxar veiddust í átján ám. Vissulega flestir á Norðurlandi eins og venjan er. Sumarið var vissulega lélegt þegar kemur að laxveiði í Húnavatnssýslunum en þær skiluðu þó stórlöxum. Hrútafjarðará, Miðfjörður, Víðidalur, Vatnsdalur og Laxá á Ásum áttu allar fulltrúa í þessum hópi. Aðeins Blanda skilaði ekki slíkum fiski í ár. Þar var sumarið ekki upp á marga fiska.
Ef við skoðum flugurnar sem þessir stærstu fulltrúar laxastofnsins tóku, þá kennir þar margra grasa sem er skemmtilegt. Oft hefur Frances fjölskyldan verið með flesta en þetta var jafnara í ár. Vissulega var fyrrnefnd fjölskylda í efsta sæti en að þessu sinni með Snældu, Sunray og Collie dog áltúbu. Allar þessar flugur eða afbrigði af þeim gáfu fjóra laxa hver. Valbeinn var svo ábyrgur fyrir tveimur.
Allt er þetta til gamans gert og byggir alfarið á upplýsingum frá ykkur. Þeir sem ekki birta upplýsingar eða senda á okkur geta ekki ætlast til að þeir laxar komist á listann. Hafa þetta hugfast næsta sumar þegar sá stóri veiðist.
| Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
|---|---|---|---|
| 100 cm | Hrútafjarðará | Jón Tómas Rúnarsson | 23. september 23.9. |
| 102 cm | Ytri Rangá | Skjöldur Pálmason | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Miðá í Dölum | Eyrún Ýr Guðmundsdóttir | 21. september 21.9. |
| 100 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 18. september 18.9. |
| 101 cm | Miðsvæðið Laxá í Aðaldal | Helgi Jóhannesson | 17. september 17.9. |
| 105 cm | Hofsá | Sveinn Blöndal | 15. september 15.9. |
| 106 cm | Laxá í Aðaldal | Sigvaldi A. Lárusson | 14. september 14.9. |