I Á undanförnum tíu árum eða svo hefur það færst í vöxt að sagnfræðingar skemmti sér við að setja saman svonefndar "Hvað ef?"-ritsmíðar.

I

Á undanförnum tíu árum eða svo hefur það færst í vöxt að sagnfræðingar skemmti sér við að setja saman svonefndar "Hvað ef?"-ritsmíðar. Þess háttar skrif munu vera algengust í hinum enskumælandi heimi og á ensku er fræðimennska af þessu tagi ýmist kölluð einfaldlega "What if?"-sagnfræði eða "counterfactual history", sem mætti þýða sem "staðleysusagnfræði" en einnig kalla "sagnfræði í viðtengingarhætti".

Kjarninn í aðferðafræði og hugsun þeirra sem dunda sér við þessa tegund söguritunar er sá, að oft hafi óvæntir atburðir ráðið úrslitum um gang eða lok mála og þar með haft afgerandi áhrif á framvindu sögunnar. Ekkert sé fyrirfram ákveðið og þess vegna hafi skyndiákvarðanir eða óvæntar athafnir einstaklinga eða hópa, óvæntar breytingar á ytri aðstæðum, t.d. ófyrirséð veðrabrigði, oft haft örlagaríkar afleiðingar. Síðan spyrja þeir er við þessi fræði fást: "Hvað ef" þetta eða hitt hefði ekki gerst (eða gerst)? Hver hefði framvinda sögunnar þá orðið, væri heimurinn kannski allt annar en hann er í dag?

Fyrst í stað brugðust margir illa við þessari tegund sagnfræði, töldu nánast ósvinnu að virtir fræðimenn "misþyrmdu" fræðigreininni með þessum hætti. Þeim væri nær að fjalla um það sem raunverulega gerðist, draga af því skynsamlegar ályktanir o.s.frv. "Hvað ef?"-sagnfræði væri í besta falli ódýr skemmtun örfárra sérvitringa og gæti seint orðið að gagni. Hér fór þó, sem svo oft endranær, að orð úrtölumanna máttu sín lítils og á síðustu árum hafa vinsældir "Hvað ef?" farið vaxandi og ýmsir vel metnir fræðimenn orðið til þess að ástunda slík fræði og benda á gildi þeirra.

II

Tilefni þessara skrifa er það, að á næstliðnu ári kom út í Bandaríkjunum bókin What if? America. Ritstjóri hennar er Robert Cowley, vel metinn og afkastamikill sagnfræðingur vestan hafs og einn af guðfeðrum "Hvað ef?"-sagnfræðinnar. Hann hefur áður ritstýrt tveimur bókum í þessum dúr, What if? og More What if?, og hlutu báðar góðar viðtökur.

Þessi nýja bók hefur að geyma sextán ritgerðir eftir jafn marga höfunda. Þær eru allar fremur stuttar, 10-25 blaðsíður, og fjalla allar um bandaríska sögu með einum eða öðrum hætti. Höfundarnir eru allir úr hópi virtra fræðimanna, breskra og bandarískra. Þeir skrifa allir um einn tiltekinn atburð og reyna að gera sér í hugarlund, hver áhrif það hefði haft á framvindu sögunnar, ef mál hefðu ráðist með öðrum hætti en raun bar vitni. Flestar fjalla greinarnar um atburði úr sögu 19. og 20. aldar, en nokkrar taka þó til eldri tíma.

Hér er þess enginn kostur að ræða efni allra greinanna. Af þeim sökum verður látið nægja að greina allýtarlega frá einni og verður það að nægja til að varpa ljósi á aðferðir og vinnubrögð höfundanna, en þeir styðjast allir við sömu eða svipaða aðferðafræði.

Greinin, sem hér verður rædd, er eftir breska hernaðarsögufræðinginn Anthony Beevor, en meðal þekktustu rita hans eru Stalíngrad og Fall Berlínar 1945. Grein Beevors ber yfirskriftina "Ef Eisenhower hefði farið til Berlínar" ("If Eisenhower Had Gone to Berlin") og fjallar um það hver áhrif það hefði haft á lok síðari heimsstyrjaldarinnar og fyrstu árin eftir hana, ef Eisenhower hershöfðingi hefði leitt bandaríska herinn alla leið til Berlínar og tekið borgina vorið 1945 í stað þess að nema staðar við Saxelfi og láta Rauða hernum eftir að hertaka höfuðborg Þriðja ríkisins.

Eisenhower hefur löngum verið gagnrýndur fyrir þessa ákvörðun sína og bentu gagnrýnendur hans á að Bandaríkjamenn hefðu hæglega getað tekið Berlín í apríl 1945. Hitler hafði þá skipað nánast öllum þeim herafla, sem Þjóðverjar áttu yfir að ráða, til að verjast framsókn Rauða hersins úr austri og allir vissu að þýsku hermennirnir og Berlínarbúar almennt vildu miklu frekar gefast upp fyrir herjum vesturveldanna en fyrir Sovétmönnum.

En Stalín lagði mikla áherslu á að vesturveldin létu Rússum Berlín eftir og lét sig ekki muna um að blekkja bandamenn sína til að ná því markmiði. Bar þó öllum saman um að hernaðarleg þýðing þýsku höfuðborgarinnar væri lítil sem engin, er hér var komið sögu, og allir vissu, að ekki skipti máli fyrir úrslit styrjaldarinnar hver tæki borgina.

En hvers vegna lagði Stalín svo mikla áherslu á að Rauði herinn færi einn inn í borgina? Hvers vegna afréð Eisenhower að láta að óskum hans, gegn vilja Churchill og ýmissa helstu herforingja Breta og Bandaríkjamanna, og hvað hefði gerst ef hann hefði tekið borgina?

Þessum spurningum reynir Anthony Beevor að svara og svör hans eru í senn fróðleg og umhugsunarverð. Hann bendir á, að meginástæða þess að Stalín lagði svo mikla áherslu á að Rauði herinn tæki Berlín voru áhyggjur af því hvað tæki við að styrjöldinni lokinni. Honum hafi verið vel kunnugt um kjarnorkuvopnatilraunir Bandaríkjamanna, miklu betur en þeir sjálfir gerðu sér grein fyrir, og hann vissi gjörla um tilraunir Þjóðverja í sömu átt. Honum var ljóst, að tækist Bandaríkjamönnum að smíða slík vopn myndu þeir hafa yfirburði yfir Sovétmenn að styrjöldinni lokinni, þrátt fyrir að "venjulegur" herafli hinna síðarnefndu væri margfalt öflugri. Af þeim sökum lagði Stalín ofuráherslu á að komast yfir úranbirgðir Þjóðverja og þá þekkingu, sem þeir bjuggu yfir í kjarnorkuvísindum. Til þess var hann reiðubúinn að fórna miklu.

Beevor telur að þetta hafi Eisenhower vitað og bendir á, að Bandaríkjamenn hafi reynt að eyðileggja eina helstu úranframleiðslustöð Þjóðverja í Oranienburg, skammt norðan Berlínar, með loftárásum. Eisenhower hafi hins vegar ekki viljað keppa við Sovétmenn um töku borgarinnar. Hann hafi vitað að það gæti kostað allt að eitt hundrað þúsund hermanna hans lífið og það væri of mikill herkostnaður, ekki síst vegna þess að Þjóðverjar höfðu þegar flutt bæði úranbirgðir og rannsóknarstofur á brott.

En hvað hefði gerst, ef Eisenhower hefði haldið með her sinn inn í Berlín vorið 1945? Beevor er ekki í miklum vafa. Hann telur að Rússum hafi verið svo mjög í mun að komast yfir úranbirgðir og þekkingu Þjóðverja að þeir hafi verið reiðubúnir að láta sverfa til stáls og hefja styrjöld gegn bandamönnum sínum. Þá hefði styrjöldinni ekki lokið 1945 og kalda stríðið hefði orðið "heitt" stríð.

Að minni hyggju er grein Beevors hin athyglisverðasta í þessari bók og sú sem mest skírskotar til almennrar sögu. Hinar greinarnar fjalla flestar meira um sögu bandarískra innanríkismála. Af þeim má nefna grein eftir John Lukacs um hvað hefði gerst ef Japanir hefðu ekki ráðist á Pearl Harbour, grein eftir Ted Morgan um tvöfalt líferni Josephs McCarthy og svo er þarna vitaskuld grein um hvað hefði orðið hefði Kennedy forseti ekki verið myrtur.

III

Allar eru greinarnar í þessari bók vel skrifaðar og bráðskemmtilegar aflestrar. En hefur "Hvað ef?"-sagnfræðin eitthvert gildi umfram það að skemmta þeim er við hana fást og örfáum tryggum lesendum þeirra? Að minni hyggju getur þessi tegund fræðimennsku haft umtalsvert gildi, ekki síst menntunarlegt. Í sögunni er ekkert gefið og sagnfræðingum hlýtur jafnan að vera hollt að velta því fyrir sér hver þróun mála hefði getað orðið, ef eitt og annað hefði gerst með öðrum hætti en raun bar vitni. Slíkar vangaveltur geta hjálpað fræðimönnum við að átta sig á orsakasamhengi sögunnar og aukið skilning þeirra á sögulegri þróun. Ber þá einnig að hafa í huga, að ritun greina og bóka af þessari gerð er ekki á færi nema reyndra fræðimanna. Enginn getur skrifað af skynsamlegu viti um hvað hefði orðið ef nema sá sem gjörkunnugur er viðkomandi tímabili og atburðarás og þekkir jafnframt vel til heimilda.

Ekki er mér kunnugt um að íslenskir sagnfræðingar hafi beitt aðferðum "Hvað ef"-sagnfræði á sögu Íslands. Slíkar tilraunir gætu þó verið forvitnilegar og nóg eru viðfangsefnin. Hver hefði t.d. orðið þróun mála ef úrslit þjóðfundarins 1851 hefðu orðið önnur en raun bar vitni, ef vinstrimenn hefðu ekki komist til valda í Danmörku 1901 og dr. Valtýr Guðmundsson verið skipaður ráðherra Íslands þá um haustið? Eða ef Þjóðverjar hefðu orðið á undan Bretum hingað til lands vorið 1940?

Spyr sá sem ekki veit.