Stafræn myndavél Netið auðveldar miðlun ljós- og hreyfimynda sem aldrei fyrr.
Stafræn myndavél Netið auðveldar miðlun ljós- og hreyfimynda sem aldrei fyrr.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í árdaga kölluðu menn það telefón, síðan síma, þráð, og það er réttnefni, því síminn er þráður, ósýnilegur nú um stundir, þráður sem tengir fólk.

Í árdaga kölluðu menn það telefón, síðan síma, þráð, og það er réttnefni, því síminn er þráður, ósýnilegur nú um stundir, þráður sem tengir fólk. Það er engin tilviljun að símar eru alls staðar - fólk vill tala við fólk og notar þá tækni sem tiltæk er og þá ekki alltaf á þann hátt sem símafyrirtæki kysu helst.

Þó það sé ekki ýkja dýrt að hringja innanlands, nema hringt sé úr farsíma eða í, kostar skildinginn að hringja milli landa, svo mikinn skilding reyndar að margur veigrar sér við að hringja í sína nánustu nema á stórhátíðum eða við sérstök tækifæri.

Tölum saman - um Netið

Það kostar aftur á móti lítið að hafa samband við fólk á Netinu, ekki nema innanbæjarsímtal sé maður með mótald, eða fast mánaðargjald fyrir þá sem eru með ADSL eða álíka háhraðatengingu við Netið. Þannig má skrifast á í rauntíma, jafnóðum og sá les á hinum endanum, við ættingja, vini, kunningja eða ókunnuga, hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Næsta skref er svo að hafa myndavél, vefmyndavél, webcam, svo sá sem maður er að spjalla við sjái hver er á hinum endanum, og ef hann er líka með vefmyndavél er hægt að skrifast á og horfast á - en fyrst það er hægt, af hverju þá ekki að tala saman um Netið líka?

Sú tækni að flytja tal um Netið er ævagömul í netárum, fyrstu fréttir um slíkt birtust til að mynda í Morgunblaðinu fyrir tæpum áratug þegar talað var um "Alnetssíma". Alnetið varð svo að Netinu og fór út um allt, en netsímatæknin breiddist ekki eins hratt út, þyrfti meiri tíma, meiri og betri tækni og meiri þekkingu hjá notendum, nýja kynslóð sem nýtti tæknina á annan hátt, þurfti ekki að hugsa, notaði bara.

01101000011000010110110001101100 11110011

Símtæki er sáraeinfalt fyrirbæri þó það hafi verið ótrúleg framúrstefna á sínum tíma, nýjasta tækni og vísindi. Í símtóli eru hljóðnemi og hátalari - maður talar í hljóðnemann sem breytir talinu í rafboð sem berast yfir símalínur á áfangastað þar sem þau framkalla aftur hljóð og láta keilurnar í hátalaranum titra eftir því sem við á.

Nokkur ár eru síðan þessi tækni tók stakkaskiptum því í stað þess að senda rafsveiflur á milli senda menn nú talnarunu, síminn er orðið stafrænn. Þá breytir símtólið rafboðum í talnarunu, röð af 1 og 0, (01101000011000010110110001101100 11110011 þýðir halló) og símtól viðtakandans breytir talnarununni í viðeigandi rafboð til að láta hátalarann í tólinu titra á réttan hátt. Stafræn tækni tryggir meiri gæði í símtölum, en hún gerir líka fleira kleift, ekki síst þegar henni er fléttað saman við tækni þá sem notuð er á Netinu, svonefnda IP-tækni.

Símtal í smábögglum

IP-tækni byggist á því meðal annars að gögnum er pakkað saman og pakkarnir síðan sendir af stað. Þegar maður slær inn upplýsingar, sendir hreyfimynd eða talar í nettengda tölvu gerist þetta jafnharðan. Pakkarnir fara síðan ekki endilega allir sömu leið, svo rétt eins og sendur sé hlutur í pörtum norður í land, sumt fer vestur um land, annað austur og enn annað kannski Kjöl; allt eftir því hvaða leið er fær og þægilegast að fara. Á áfangastað er öllu síðan raðað saman og fyrir viðtakandanum er eins og allt hafi verið sent sömu leið á sama tíma, svo hraðvirk er tæknin. Helsti kostur við þetta er að þó ein leið sé lokuð, ófært sé um Öxnadalsheiði eða símalína slitin, fara pakkarnir bara aðra leið, finna bestu leiðina.

Kostirnir eru fleiri, til að mynda betri nýting á bandvídd, því þegar hringt er úr síma í síma er línan upptekin; gefur augaleið að ekki geta fleiri notað hana samtímis, og nýtingin á flutningsgetunni í venjulegt símatali er frekar slæm - ríflega helmingur af hverju símtali er þögn, bið milli orða, setninga og hugsana. Ekki er búinn til pakki með þögn - þegar ekkert er sagt eru engin gögn að senda. Með því að nota nettæknina, pakkatæknina, er því hægt að nýta bandvíddina, línuna, betur og hún getur verið að flytja marga pakka samtímis frá mörgum símum eða tölvum, símtæki/tölva viðkomandi tekur aðeins við þeim pökkum sem eiga að fara þangað og þeir einir berast síðustu metrana.

Ég á þetta símanúmer

Ekki er svo bara að það sé hagkvæmara og þar af leiðandi ódýrara að nota netsíma en venjulegan síma, heldur bjóða netsímar upp á ýmislegt sem ekki er hægt að framkvæma með venjulegum síma. Til að mynda getur maður haft símanúmerið sitt með sér, ef svo má segja; það er sama hvar maður er staddur í heiminum, símanúmerið fylgir netsímanum en ekki staðnum - símtal berst í sama númer og venjulega án þess að borga þurfi offjár fyrir líkt og þegar maður fer með farsímann í ferðalög.

Líka er hægt að fá skilaboð sem lesin eru inn í talhólf send í tölvupósti ef maður vill, svo er líka hægt að láta fleiri en einn síma svara sama númeri, hægt að hafa marga síma á heimilinu án þess að borga stórfé fyrir aukanúmer því það er svo einfalt og ódýrt að bæta við númerum - sem sagt: hver getur haft sinn síma á heimilinu og svo má telja.

Ekki bara hamingja

Ekki eru netsímar þó bara hamingja: það eru líka ókostir við símana. Tæknin er enn að mótast og kallar á góða (trausta) nettengingu þó iðulega séu gæði símtals meiri í netsíma en í um venjulega símkerfið. Hér á landi er ekki boðið upp á eiginlegan netsíma, þ.e. símabox sem sett er við nettengingu heimilisins og símtól síðan tengt við það box. Aftur á móti eru ýmsar leiðir aðrar til að hringja á Netinu, skoðum það næst.

Netið er ætlað til að flytja stafrænar upplýsingar og skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaða upplýsingar það eru - ljósmyndir, músík, bíómyndir, hugbúnaður, texti eða tal. Þegar búið er að snúa gögnum á stafrænt snið, það snið sem Netið notar, er hægt að senda gögnin um Netið. Fyrir rúmum áratug byrjuðu menn þannig að gera tilraunir með eins konar netsíma - tengdu hljóðnema og heyrnartól við tölvu. Þá tók tölvan upp tal og sendi um Netið og tölva á hinum endanum sneri því í hljóð. Samtalið átti það til að vera skrykkjótt og ekki gátu báðir talað í einu - það var kallað að tala "á fjöðrinni" þegar maður talaði í land á sjónum forðum daga; sá sem talaði hélt niðri fjöður á símtólinu og heyrði ekki til hins á meðan - frumstætt en áhrifaríkt.

Áratugur er semsagt síðan fólk tók að nota Netið til að spjalla og þeir sem voru með góða tengingu bættu við vefmyndavél, webcam, og voru þá komnir með draumatækið vídeósíma. Sambandið var ekki alltaf gott, stundum bergmál og bið, en það skipti ekki svo miklu - kostnaðurinn við símtalið var ekki nema brot eða brotabrot af því sem það kostaði að hringja í venjulegum síma.

Alnetssíminn lifir!

1. desember 1995 birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem sagt var frá þessari nýju tækni, "Alnetssímanum" sem áður er getið, en í þeirri frétt er einmitt rætt um átak nokkurra áhugamanna um netsamskipti sem þeir kölluðu Free World Dialup Experiment og hófst í október það ár. Það byggðist á því að menn notuðu tölvur til að hringja í tölvur í útlöndum sem síðan tengdu sig inn á símkerfi í viðkomandi borg og þannig komst maður í samband við venjulegan síma: tölva sendi hljóðskrár til tölvu úti í heimi sem tengdist almenna símkerfinu á þeim stað, hringdi í fastlínusíma og spilaði hljóðskrána þegar svarað var. Sáraeinfalt á pappírnum og boðberi þess sem síðar varð.

Free World Dialup lifir enn góðu lífi og betra lífi með hverjum deginum reyndar. Vilji menn nota það sækja þeir sér ókeypis hugbúnað eða nota netsíma, IP-síma, ef hann er tiltækur. Með Free World Dialup er hægt að fá tengingu í venjulegt símkerfi í einhverjum tilvikum, en alla jafna byggist það á að báðir aðilar séu með viðeigandi hugbúnað upp settan.

Skype slær í gegn

Mikið er talað um Skype og ekki nema von, því Skype er einföld og auðskiljanleg leið til að tala við fólk um Netið. Skype er forrit sem sett er upp á tölvu viðkomandi notanda og tölvu þess sem hann vill tala við, bráðeinfalt og fljótlegt. Það notar sömu tækni og skiptiforrit, P2P forrit eins og Kazaa og fleiri álíka, en kallar ekki á neina sérþekkingu notandans; hann sækir forritið, sem er ókeypis, setur það upp, stingur heyrnartólum og hljóðnema í samband við tölvuna og byrjar að hringja. Svo einfalt er að nota Skype að 56.802.595 manns hafa sótt sér forritið að því er kemur fram á vefsetri Skype, Skype.com.

Með Skype er hægt að hringja einkar ódýr símtöl út um allan heim. Fastur kostnaður er nettengingin, sem nánast allir eru með hvort eð er, og svo þarf að borga fyrir þau gögn sem sótt eru frá útlöndum (ótrúlegt en satt). Sá kostnaður er líka óverulegur miðað við annað það sem menn sækja frá útlöndum - Skype notar 3-16 kílóbæti á sekúndu, eftir gæðum sambandsins.

Samkvæmt upplýsingu Símans er meðallengd símtals á kvöldin um 6 mínútur. Gagnamagn símtals með Skype væri því til að mynda 9 KB á sekúndu * 360 sekúndur eða 3,1 MB. Ef helmingur af því er erlent niðurhal myndi slíkt sex mínútna símtal kosta tæpar fjórar krónur, svo framarlega sem þetta hálfa annað megabæti væri umfram innifalið gagnamagn. Tæpar fjórar krónur sama hvert væri hringt

Til samanburðar kostar slíkt sex mínútna símtal 3,75 kr. + 1,35 á mínútu ef hringt er í heimasíma innanlands að kvöldlagi = 11,85 kr. Ef hringt er til útlanda verður munurinn enn meiri, til að mynda myndi símtalið kosta 3,75 + (19,90 * 6) = 123,15 kr. til Bandaríkjanna, 297,75 kr. til Brasilíu og 417,75 kr. til Mongólíu (í öllum dæmunum er miðað við að hringt sé í 00 og fastur kostnaður ekki tekinn með).

3G hvað?

Ekki er langt síðan símafyrirtæki víða um heim kepptust við að kaupa rekstrarleyfi á svonefndum þriðju kynslóðar farsímum, 3G-símum, eins og þeir voru kallaðir. Sú tækni bauð upp á mun meiri gagnaflutningsgetu í farsíma en áður hafði þekkst - farsími var ekki lengur bara farsími heldur tól til að taka við netupplýsingum, tölvupósti, myndskeiðum, tónlist og guð má vita hverju. Þetta kallaði á nýja gerð af símum og ný netkerfi símafyrirtækja, mikil fjárfesting, ekki síst í gríðarlega dýrum rekstrarleyfum, en eins víst að sú fjárfesting myndi skila sér. Annað kom þó á daginn - á meðan símafyrirtækin voru að skipta með sér 3G-kökunni í mestu makindum voru símanotendur byrjaðir að hringja á Netinu og kunnu því bara vel, svo vel reyndar að fyrir þeim var það aðalmálið, mesti spenningurinn var í netsímanum, enginn var að spá í þriðju kynslóð farsíma.

Allir fá sér netsíma

Framtíðin er nokkuð ljós, á endanum verða allir komnir með netsíma, nema þeir sem vilja borga meira fyrir minna. Símanúmerið fylgir manni hvert á land sem er, hægt verður að láta símann þýða fyrir sig jafnharðan, panta hótelherbergi eða spyrja til vegar á hvaða máli sem er, gefa skipanir um hitt og þetta, kveikja á ofninum, lækka hitann, slökkva útiljósið og svo má lengi telja. Þegar tölva er komin í spilið eru lítil takmörk fyrir því hvað hægt er að gera og hvað verður gert.

Hvað verður um símafyrirtækin? spyrja margir og ekki nema von að spurt sé. Netsími, IP-símatæknin, er nefnilega til þess fallin að kollvarpa símafyrirtækjunum ef þau gæta ekki að sér, gerbreytir tekjustreymi þeirra og spillir arðbærum rekstri. Þau hafa enn leiðslurnar í hendi sér, maður þarf enn að eiga við þau til að fá nettengingu, koparinn inn í hús, en með netsímatækni getur nánast hver sem er stofnað símafyrirtæki. Það þarf bara að semja við eigendur sæstrengja um afnot af strengnum, semja fyrir fyrirtæki ytra um að taka að sér að tengja inn á símkerfi þar sem þess er þörf og síðan er maður kominn í bisness. Eins gott að selja Símann strax - og láta grunnnetið endilega fylgja með; það er ekki víst að það verði mikils virði eftir nokkur ár. | arnim@mbl.is

Eftir Árna Matthíasson Ljósmyndir Kristinn Ingvarsson