EINN Íslendingur var meðal 15 skipverja sem bjargað var úr sökkvandi fiskiskipi úti fyrir Sómalíu á austurströnd Afríku síðastliðinn miðvikudag. Frá þessu var greint í norskum fjölmiðlum í gær en tveir Norðmenn voru um borð, skipstjórinn og vélstjórinn.

EINN Íslendingur var meðal 15 skipverja sem bjargað var úr sökkvandi fiskiskipi úti fyrir Sómalíu á austurströnd Afríku síðastliðinn miðvikudag. Frá þessu var greint í norskum fjölmiðlum í gær en tveir Norðmenn voru um borð, skipstjórinn og vélstjórinn.

Skipið var á humarveiðum og nefndist Marie. Norðmennirnir voru frá útgerðarfyrirtækinu Ervik Havfiske, sem er ein stærsta línuútgerð Noregs. Talsmaður fyrirtækisins staðfesti í samtali við Morgunblaðið að Íslendingur hefði verið um borð og að enginn hefði slasast. Vildi hann ekki gefa upp nafn Íslendingsins en sagði hann vera búsettan í Brasilíu. Utanríkisráðuneytið hafði engar fregnir haft af slysinu í gær, aðrar en úr norskum fjölmiðlum, og hið sama var að segja um sendiráð Íslands í Osló.

Strandgæsla í stað sjóræningja

Aðrir í áhöfn skipsins voru frá Sómalíu. Neyðarkall barst um gervihnött til björgunarmiðstöðvar í Sola í Noregi, sem lét nærstadda báta vita. Var skipverjunum bjargað af bátum strandgæslunnar í Sómalíu og siglt með þá til bæjarins Bosasso. Talið er vonlaust að ná skipinu upp af hafsbotni.

Haft er eftir talsmanni norsku björgunarmiðstöðvarinnar að það hafi komið honum á óvart að Sómalir ættu sér strandgæsluskip. Á þessum slóðum væri algengara að smábátar með vélbyssur og sjóræningja innanborðs birtust ef sjófarendur væru í nauðum staddir.