Ólafur Ingi Skúlason í leik með Arsenal gegn Úlfunum.
Ólafur Ingi Skúlason í leik með Arsenal gegn Úlfunum.
ÓLAFUR Ingi Skúlason, fyrirliði 21 árs landsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Arsenal, er enn á sjúkralistanum og óvíst er hvort hann verður klár í slaginn þegar íslenska ungmennalandsliðið sækir Króata heim í undankeppni Evrópumótsins í næsta mánuði.

ÓLAFUR Ingi Skúlason, fyrirliði 21 árs landsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Arsenal, er enn á sjúkralistanum og óvíst er hvort hann verður klár í slaginn þegar íslenska ungmennalandsliðið sækir Króata heim í undankeppni Evrópumótsins í næsta mánuði. Ólafur gekkst undir aðgerð vegna beinmars í lífbeini í nóvember og hefur enn ekki fengið sig góðan. Hann fór líklega of snemma af stað eftir aðgerðina. Hann lék með varaliði Arsenal gegn Crystal Palace um miðjan desember og síðan hefur hann hvorki getað æft né spilað.

Ólafur Ingi fór í sprautumeðferð hjá Sveinbirni Brandssyni, lækni íslenska landsliðsins, í síðustu viku og vonast hann til að sú meðferð ýti undir að hann nái fljótlega bata og geti byrjað að æfa að nýju.

"Ég er miklu skárri eftir þessar sprautur og ég er að vonast til að geta farið að byrja að hreyfa mig fljótlega en líklega verða samt tvær til þrjár vikur þar til ég get byrjað að æfa með liðinu. Ég get ekki sagt til um það á þessari stundu hvort ég verð orðinn klár fyrir leikinn á móti Króatíu en vonandi verð ég það. Aðalmálið er að fá sig góðan sem fyrst og ég ætla að horfa fyrst og fremst á það í stað þess að hugsa lengra fram í tímann," sagði Ólafur Ingi við Morgunblaðið í gær.

Ólafur Ingi er samningsbundinn Arsenal til vors en eins og fram hefur komið hefur hollenska liðið Groningen sýnt mikinn áhuga á að fá hann til liðs við sig. En hvernig standa þau mál í dag?

,,Það er allt opið ennþá með Groningen. Forráðamenn liðsins eru meðvitaðir um hvernig staðan er á mér. Þeir koma til með að fylgjast áfram með mér, bæði í leikjum með varaliðinu hjá Arsenal og eins landsleikjunum ef maður verður í þeim hópi," segir Ólafur.