E.T. símar heim. Tárin streymdu hjá bíógestum um heim allan þegar geimveran góðhjartaða kvaddi.
E.T. símar heim. Tárin streymdu hjá bíógestum um heim allan þegar geimveran góðhjartaða kvaddi.
LOKAATRIÐIÐ í fjölskyldumynd Stevens Spielbergs um geimveruna E.T. kallar fram fleiri tár en nokkuð annað í gervallri sögu kvikmyndanna.

LOKAATRIÐIÐ í fjölskyldumynd Stevens Spielbergs um geimveruna E.T. kallar fram fleiri tár en nokkuð annað í gervallri sögu kvikmyndanna. Þetta eru niðurstöður könnunnar um mestu vasaklútamyndirnar sem breska sjónvarpsstöðin Channel 4 gerði meðal áhorfenda sinna. Þeir 70 þúsund sem tóku þátt táruðust mest yfir því þegar E.T. sneri aftur til heimkynna sinna í geimnum og kvaddi vin sinn Elliott.

Í öðru og þriðja sæti höfnuðu atriði úr Tom Hanks-myndinni The Green Mile og vinsælustu mynd sögunnar, Titanic . Í fjórða sæti lenti lokaatriðið úr jólaeftirlætinu It's a Wonderful Life , mynd Frank Capras frá 1942.

Eina teiknimyndin sem komst á lista yfir tíu mestu táramyndirnar er Disney-myndin ljúfsára um dádýrið Bamba , einnig frá 1942, en hún lenti í 6. sæti.

Hinar vasaklútamyndirnar á topp tíu eru fangelsisdramað The Shawshank Redemption , hnefaleikamyndin The Champ með John Voight og Rick Schroder, hafnaboltamyndin Field of Dreams með Kevin Costner og My Girl með Macaulay Culkin kornungum.

Í flokki sjónvarpsefnis hafnaði lokaatriðið hjartnæma í fjórðu og síðustu þáttaröð gamanþáttanna Blackadder í efsta sæti og í flokki íþróttaefnis kemur ekki á óvart að Bretar segist hafa tárast mest yfir því þegar Gareth Southgate misnotaði vítaspyrnu í undanúrslitaleiknum gegn erkifjendunum Þjóðverjum á Evrópumótinu árið 1996.