EFTIRFARANDI yfirlýsing hefur borist frá Gunnari Þorsteinssyni forstöðumanni Krossins: Það er vissulega að bera í bakkafullan lækinn að reyna að leiðrétta fréttaflutning DV. En því miður get ég ekki orða bundist.

EFTIRFARANDI yfirlýsing hefur borist frá Gunnari Þorsteinssyni forstöðumanni Krossins:

Það er vissulega að bera í bakkafullan lækinn að reyna að leiðrétta fréttaflutning DV. En því miður get ég ekki orða bundist. Þegar þetta er ritað eru hérna hjá mér þolandi kynferðisglæps og móðir og fyrrum eiginkona kynferðisglæpamanns. Umfjöllun DV um mál þeirra er afar meiðandi og með öllu ósönn. DV gerist málsvari barnaníðings og á forsíðu, innsíðu og í leiðara er farið með staðlausa stafi sem þjóna þeim einum tilgangi að meiða illa sára þolendur enn meir. Eitt er víst að ekki þjóna þessi skrif sannleikanum. Við óskum þess að eftirfarandi komi fram um efnisatriði málsins: Barnið sem var þolandi var flutt af heimilinu er móðir hennar og sambýlismaður gerðu aftur tilraun til hjúskapar eftir stuttan skilnað sem skömmu síðar endaði með lögskilnaði. Kynferðisglæpir þeir sem DV fjallar um voru eingöngu á vitorði geranda og þolanda og náinnar vinkonu og móður og vinkonu hennar þar til einum fjórum árum eftir lögskilnaðinn. Þá var farið af stað að góðra manna ráðum með dómsmál til að fyrirbyggja að framhald gæti orðið á þessari breytni gagnvart öðrum. Aldrei var um að ræða þrýsting frá einum eða neinum sem þekktu efni þessa máls um samvistir eða sambúð.

Við hörmum að ung börn og viðkvæmar sálir, sem og aðstandendur og vinir þurfa að líða með þessum hætti fyrir fréttaflutning sem er fullkomlega óábyrgur. Við teljum að hér hafi fjölmiðill lagst lágt með því að reiða til höggs gagnvart saklausu fólki sem hefur þegar þjáðst meir en orð fá lýst.

Ég þakka þeim öðrum fjölmiðlum sem hafa fjallað um þetta mál, en það hefur verið gert af nærgætni og yfirvegun. Því miður verður hið sama ekki sagt um DV og ég tek heilshugar undir orð séra Hjámars Jónssonar Dómkirkjuprests sem hann lét fjalla um DV í Kastljósi fyrir skömmu er hann lýsti skrifum þeirra sem "skepnuskap".