KARL Malone, annar stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar í körfuknattleik frá upphafi, tilkynnti í fyrrinótt að hann hefði ákveðið að binda enda á glæsilegan feril sinn vegna þrálátra meiðsla í hné.

KARL Malone, annar stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar í körfuknattleik frá upphafi, tilkynnti í fyrrinótt að hann hefði ákveðið að binda enda á glæsilegan feril sinn vegna þrálátra meiðsla í hné. Malone, sem er 41 árs, lék í 18 ár með Utah Jazz áður en hann ákvað að söðla um og ganga í raðir Los Angeles Lakers árið 2003. Hjá Lakers varð hann fyrir fyrstu alvarlegu meiðslunum á ferlinum. Hann missti af úrslitarimmunni gegn Detroit, þar sem Lakers varð að láta í minni pokann á síðustu leiktíð, og tókst ekki að fá sig góðan af meiðslunum sem varð til þess að hann tók þá ákvörðun að hætta.

Malone, sem kallaður var "Bréfberinn" eða The Mail Man, skoraði 25 stig að meðaltali á ferli sínum í NBA og tók 10,1 frákast. Hann er annar stigahæsti leikmaður í sögu NBA með 36,928 stig en stigahæstur er Kareem Abdul-Jabbar með 38,387 stig. Malone var tvívegis valinn besti leikmaður NBA, 1997 og 1999.