Munni aðkomuganganna í Fljótsdal er farinn að taka á sig stærri mynd hjá starfsmönnum Fosskraft.
Munni aðkomuganganna í Fljótsdal er farinn að taka á sig stærri mynd hjá starfsmönnum Fosskraft. — Ljósmynd/Landsvirkjun
BÚIÐ er að heilbora nærri þriðjung aðrennslisganga Kárahnjúkavirkjunar, eða 13,5 km af 48,3 km löngum göngum í heild sinni.

BÚIÐ er að heilbora nærri þriðjung aðrennslisganga Kárahnjúkavirkjunar, eða 13,5 km af 48,3 km löngum göngum í heild sinni. Í viku hverri mjakast risaborarnir þrír áfram um 300-400 metra samtals en að sögn Sigurðar Arnalds hjá Landsvirkjun hafa mestar tafir orðið í aðrennslisgöngum 3 í Hrafnkelsdal vegna leka og vatnsaga. Bergið þar er ungt móberg frá ísöld, m.a. bólstraberg, og fer mikill tími hjá starfsmönnum Impregilo í að þétta göngin.

Aðrennslisgöng 3 verða styst, eða um 5,5 km, en borunin er þó lengst komin þar, eða um 3,8 km. Í hinum aðrennslisgöngunum, þar sem bergið er mun eldra og þéttara í sér, hafa risaborarnir komist 20-25% leiðarinnar. Göng 1 verða 14 km en göng 2 rúmir tíu km.

Útivinna við sjálfa Kárahnjúkastífluna gengur hægar í frosthörkunum en Sigurður segir távegginn í fremsta hluta stíflunnar "tosast upp". Hæstur verður veggurinn 45 metrar en búið er að steypa hann í um 27 metra hæð. Starfsmenn Impregilo eru nýlega byrjaðir á grjótfyllingu í aðalstíflunni en frostið hefur gert færibandinu erfitt fyrir undanfarið. Því hafa stórvirkir vörubílar verið notaðir í meira mæli í grjótflutninginn. Búið er að fylla í um 30% af stíflunni, eða 2,4 milljónir rúmmetra af 8,7 milljónum rúmmetra. Sigurður segir að meiri hraði fáist í þessa vinnu þegar nær dregur vori.

Að sögn Sigurðar ganga framkvæmdir ágætlega hjá Arnarfelli við Jökulsárveitu en vinna Suðurverks við hliðarstíflur Kárahnjúkavirkjunar liggur niðri þar til í marsmánuði.

Góður gangur er hjá Fosskraft við byggingu stöðvarhúss og spennusalar inni í Valþjófsstaðarfjalli í Fljótsdal. Steypuvinna er í fullum gangi og nú styttist í að uppsetning vélbúnaðar hefjist. Í lok febrúar er stefnt að því að steypa botn stöðvarhússins og þá koma fyrstu stálhlutarnir í sográsina undir túrbínum virkjunarinnar.

Hluti farms Jökulfells átti að fara í stöðvarhúsið

Einhverjar tafir verða þó á steypuvinnunni hjá Fosskraft þar sem um 840 tonn af steypustyrktarstáli, sem átti að nota í stöðvarhúsið, voru um borð í ms. Jökulfelli sem fórst norður af Færeyjum sl. mánudag. Var það nærri helmingur alls farmsins. Verið er að útvega aðra stálsendingu í staðinn.