Starfsmenn Þórshafnarhrepps voru léttir á fæti nú fyrir helgina þegar þeir færðu íbúunum heim í hús myndarlega möppu sem innihélt fullfrágengið aðalskipulag sveitarfélagsins.

Starfsmenn Þórshafnarhrepps voru léttir á fæti nú fyrir helgina þegar þeir færðu íbúunum heim í hús myndarlega möppu sem innihélt fullfrágengið aðalskipulag sveitarfélagsins. Máltækið "til þess skal vanda sem vel á að standa" gæti verið haft að leiðarljósi við gerð aðalskipulagsins því vinna við það hefur nú staðið yfir í hálfa öld. Vinna við það hófst árið 1953 og hefur staðið yfir með hléum síðan en í fyrrasumar var það undirritað af umhverfisráðherra.

Í aðalskipulaginu er að finna ágrip af sögu svæðisins; til dæmis hvenær byggð hófst, þróun veðurfars og mannfjölda og þess háttar, svo þarna er ágætur upplýsingagrunnur fyrir byggðarlagið. Einnig er þar stefnumörkun um uppbyggingu í sveitarfélaginu næstu 20 ár og er stór áfangi í höfn hjá sveitarfélaginu við lok þessarar vinnu en fæst minni sveitarfélög hafa að fullu lokið við aðalskipulagið.

Umræður um þorramat og þorrablót hafa löngum einkennt þennan árstíma en þorrablót var haldið með stæl í félagsheimilinu líkt og fyrri ár. Að þessu sinni fór þorrablótsnefndin "á flug" því þema skemmtidagskrár var einmitt flugið. Nefndin tók á móti blótsgestum í gervi flugmanna og flugfreyja og nokkuð var haft fyrir því að útvega rétta klæðnaðinn og að skreyta salinn á viðeigandi hátt.

Þetta gæti vakið áhuga á því sem jafnan þykir sjálfsagt, það er að hafa góðar flugsamgöngur. Þórshöfn er í hópi þeirra byggðarlaga sem státa af flugsamgöngum alla virka daga. Aftur á móti hefur flug verið lagt niður til næstu nágranna, svo sem á Raufarhöfn og á Húsavík. Hér er góður flugvöllur og flogið hingað alla virka daga, farið er í loftið um ellefuleytið að morgni og farþeginn er kominn til Akureyrar eftir rúman hálftíma og til Reykjavíkur kringum hádegið. Íbúum hér úti á ysta nesi þætti ekki góð tilhugsun að vera án flugsins og því var þema þorrablótsins í ár vel til fundið því góðar samgöngur eru einn af þeim þáttum sem styrkja hvert byggðarlag.