Steinunn Helga Sigurðardóttir myndlistarmaður og samstarfsmaður hennar Morten Tillitz. Þau munu halda sýningu í Kling & Bang í október nk.
Steinunn Helga Sigurðardóttir myndlistarmaður og samstarfsmaður hennar Morten Tillitz. Þau munu halda sýningu í Kling & Bang í október nk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinunn Helga Sigurðardóttir myndlistarmaður er með mörg járn í eldinum þar sem hún býr í sveitasælunni í Lejre í Danmörku.

Steinunn Helga Sigurðardóttir myndlistarmaður er með mörg járn í eldinum þar sem hún býr í sveitasælunni í Lejre í Danmörku. Í byrjun febrúar var opnuð sýning á listasafninu Køge Skitsesamling samkvæmt hugmynd hennar og samstarfsmanns hennar Mortens Tillitz í bænum Køge rétt utan við Kaupmannahöfn. Á sýningunni eru verk níu listahópa, alls 16 listamanna, frá Danmörku og Íslandi sýnd á tveimur stöðum samtímis, þ.e. á safni og í verslun, eins og heiti sýningarinnar "dobbeltop" vísar til.

"Fyrst ætluðum við að hafa sýninguna á safni og á krám og þaðan kom nafnið sem er sambærilegt við "Einn tvöfaldan" á íslensku," segir Steinunn og hlær. Hætt var við kráarhugmyndina en forsvarsmennirnir héldu sig við nafngiftina sem þótti góð.

Sýningin er rannsókn á samhengi verkanna og markmiðið með henni er m.a. að færa listina út í daglega lífið og daglega lífið inn á Listasafnið. Steinunn og Morten hafa unnið að undirbúningi í tvö ár og Listasafnið í Køge hefur staðið þétt við bakið á þeim. "Maria Gadegaard er ungur og metnaðarfullur safnstjóri og listfræðingur á listasafninu í Køge og hún var strax með á nótunum þótt í sýningunni felist ákveðin gagnrýni á listasöfn," segir Steinunn og bætir við að Køge sé tilvalinn staður fyrir sýningu af þessu tagi þar sem miðbærinn er fallegur og ekki of stór og listasafnið í miðbænum.

Listasöfn eru í rauninni bara hvítur kassi," segir Steinunn. "Þar er ekkert undirspil eins og þegar verkið er úti í búð og allt umhverfið spilar með. En það er líka allt í lagi og á að sjálfsögðu fullan rétt á sér. Annað þarf ekki að útiloka hitt," segir Steinunn sem sjálf gerir hvort tveggja, að sýna á söfnum og á öðrum stöðum.

Yfir 800 manns mættu á opnun sýningarinnar 3. febrúar og var allur bærinn undirlagður og mikil stemning að sögn Steinunnar. Plaköt voru prentuð og þeim hefur verið dreift ásamt vegvísi um sýninguna lá frammi en verkin voru sýnd í níu verslunum. "Listasafnið bauð gestum upp á heitt rauðvínsglögg og ristaðar möndlur fyrir utan safnið þar sem bálkestir voru á víð og dreif og góð stemning skapaðist. Verslanirnar buðu einnig upp á vín, gos og snakk," segir Steinunn. Heilmikil sýningarskrá er í prentun en ljósmyndir af opnuninni fara m.a. í hann og þar skrifar Maria Gadegaard listfræðingur um sýninguna.

Steinunn spáir í samspil listarinnar og samfélagsins í flestu sem hún tekur sér fyrir hendur og það var einmitt viðfangsefnið í samstarfsverkefni hennar og Mortens og fjögurra annarra listamanna fyrir fimm árum, sýningunni Camp Lejre sem var haldin í Lejre. Sú sýning vakti mikla athygli og þá vaknaði hugmyndin um tvöfalda sýningu þar sem athugað yrði hvort verkið nyti sín jafnvel á listasafni og í daglega lífinu eins og í þeirri sýningu sem nú er orðin að veruleika í Køge og stendur til 3. apríl.

"Mér er mikið í mun að fá fólk til að tala saman og hafa skoðun á listaverkum. Ég vil ná til fólks sem fer aldrei á myndlistarsýningar. Ég hef fundið á þeim sem ég hef talað við eftir opnunina að þessi viðburður í Køge hefur einmitt skapað þær umræður sem við vonuðumst eftir."

Steinunn og Hekla Dögg Jónsdóttir eru Íslendingarnir sem taka þátt í sýningunni og heitir verk Heklu Wishing well eða Óskabrunnur og er á safninu eins og öll hin verkin en jafnframt í skartgripaversluninni Guld og Sølv. Verk Steinunnar er samstarfsverkefni með þremur öðrum listamönnum og heiti verksins JOMOSTME er myndað úr upphafsstöfum þeirra: John Krogh, Morten Tillitz, Steinunn og Mette Dalsgård.

Handunnið listaverk er þar framleitt sem vara þar sem listamennirnir vinna 50 verk. "Þegar við teljum okkur búin að fullgera verkið tekur annar við og vinnur áfram í verkið þannig að það eru alltaf tvö af okkur sem setjum okkar persónulega spor á sama verkið. Við viljum selja verkin í allavega verslunum, listasöfnum og hjá kaupmanninum á horninu þannig að það sé aðgengilegt fyrir alla. Í tengslum við þetta verk var búið til plakat sem dreift er ókeypis á sýningunni. Inntakið í þessu verki eins og sýningunni í heild er að ná til breiðari hóps en ekki bara til þeirra sem koma á listsýningar."

Steinunn og Morten munu halda sýningu í Kling og Bang í október á þessu ári. En fyrir utan að sinna myndlistinni rekur Steinunn myndlistarskóla ásamt Morten, þar sem nemendur eru fólk sem á einhvern hátt hefur takmarkaða virkni en eru þó sjálfbjarga. Í tengslum við skólann er rekið færanlegt gallerí sem er fjarri því að vera eina galleríið sem Steinunn er tengd. Hún sinnir einnig sýningarstjórn hjá Galleri Nordlys í Kaupmannahöfn þar sem íslensk myndlist er í hávegum höfð og er félagi í GUK+ sem er sýningarstaður í þremur löndum: Í húsagarði á Selfossi, í garðhúsi í Lejre í Danmörku, í eldhúsi í Bremen í Þýskalandi og á tölvuskjá sem er á ólíkum stöðum í heiminum eftir því hvar eigandinn er staddur hverju sinni. Fjórir listamenn reka GUK+ í og við heimili sín, þ.e. Steinunn, Alda Sigurðardóttir, Hlynur Hallsson og Jürgen Witte.