Sigurður Ingvarsson fæddist í Stíflu í V-Landeyjum 6. september 1927. Hann lést á Sauðárkróki 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Ingvar Sigurðsson, f. 30. mars 1901 á Nesi í Norðfirði, d. 11. janúar 1979, og Hólmfríður Einarsdóttir, f. 22. apríl 1896 í Berjanesi í V-Landeyjum, d. 25. ágúst 1979. Eftirlifandi systkini Sigurðar eru: Elín, f. 17. september 1920, Ráðhildur, f. 25. maí 1929, Sigurgestur, f. 10. nóvember 1933, og Kristbjörg, f. 13. maí 1936. Látin eru: Sigurður Halldór, f. 1. nóvember 1914, Aðalheiður Sigurveig, f. 5. október 1916, Einar, f. 14. ágúst 1922, Guðlaug, f. 16. október 1923, Jólín, f. 1. nóvember 1924, og Trausti, f. 15. júlí 1926. Sigurður var ókvæntur og barnlaus.

Útför Sigurðar verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Við minnumst með nokkrum orðum Sigurðar Ingvarssonar, bróður, mágs og frænda.

Sigurður ólst upp í stórum systkinahópi í gamla torfbænum í Stíflu í V-Landeyjum ásamt öðru heimilisfólki sem var mun fleira í þá daga en nú tíðkast. Þar lærðu öll börnin að prjóna leppa í skinnskó eða tátiljur hjá Jólínu ömmu. Siggi þótti uppátektasamur krakki og þar sem hann nennti ekki þessum prjónaskap varð útkoman eitthvað undarleg; einkennilegir skór sem hann klæddi köttinn Slött í sem var lítt hrifinn af uppátæki stráksa. Sagan lifir enn og hefur kætt margan krakkann enda hafði Siggi gaman af að rifja hana upp.

Raunar lýsir þetta bernskubrek skapferli Sigga nokkuð vel því ávallt var stutt í glettni og spaugilega sýn á menn og málefni. Hann var léttur í lund og dagfarsprúður, þótti duglegur verkmaður enda hraustbyggður og ósérhlífinn.

Eftir stutta barnaskólagöngu, eins og títt var hjá fólki af hans kynslóð, fór Siggi til sjós og var sjómaður til margra ára, lengst á togaranum Surprise frá Hafnarfirði. Á þeim árum bjó hann hjá systrum sínum, í Hófgerðinu, Stíflu og í Hálogalandi. Síðar vann hann til margra ára hjá vegagerðinni við brúarsmíði. Um 1981 fór Siggi að vinna hjá fiskverkuninni Meitlinum í Þorlákshöfn og bjó hann síðan þar í bæ. Var hann þar í nágrenni við Sigrúnu systurdóttur sína og hennar fjölskyldu sem reyndist honum ávallt vel.

Við geymum minningar okkar um Sigga; sjáum hann fyrir okkur þar sem hann stendur við vegavinnubúðirnar í brúarsmíðinni; á köflóttri skyrtu, bústinn, með skeggið, hlæjandi dátt og býður upp á íslenska kjötsúpu sem var sérstakt eftirlæti hans. Siggi var sérlega barngóður, sló á létta strengi við þau og tók þau gjarnan með í leik og störf. Við þökkum kynni liðinna ára.

Blessuð sé minning Sigurðar Ingvarssonar.

Þýtur í stráum þeyrinn hljótt,

þagnar kliður dagsins.

Guð er að bjóða góða nótt

í geislum sólarlagsins.

(Trausti Á. Reykdal.)

Sigurgestur, Sigrún, Áslaug, Frosti og Þórdís Björk.