FJÓRIR lettneskir starfsmenn GT-verktaka, sem er undirverktaki Impregilo við Kárahnjúkavirkjun, voru ásamt forráðamönnum fyrirtækisins færðir til yfirheyrslna hjá lögreglunni á Egilsstöðum í gær.

FJÓRIR lettneskir starfsmenn GT-verktaka, sem er undirverktaki Impregilo við Kárahnjúkavirkjun, voru ásamt forráðamönnum fyrirtækisins færðir til yfirheyrslna hjá lögreglunni á Egilsstöðum í gær. Hafa Lettarnir hvorki dvalar- né atvinnuleyfi hér á landi og sendi Vinnumálastofnun kæru til embættis sýslumanns á Seyðisfirði þar sem farið var fram á rannsókn á málinu.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir við Morgunblaðið að stofnunin líti það mjög alvarlegum augum að fyrirtæki ráði til sín starfsfólk sem hvorki hafi tilskilin dvalar- né atvinnuleyfi. Yfirtrúnaðarmaður Kárahnjúkavirkjunar kom málinu á framfæri við verkalýðsfélög og Vinnumálastofnun, eftir að fregnaðist að Lettarnir gengu í störf Íslendinga sem GT-verktakar höfðu skömmu áður sagt upp. Fyrirtækið hefur m.a. annast akstur fólksflutningabíla á virkjunarsvæðinu og verið með byggingarkrana á sínum snærum.

Að sögn Gissurar hafa GT-verktakar gefið þau svör að um sé að ræða störf við þjónustuviðskipti, sem falli undir ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði þjónustu, og séu þar með undanþegin dvalar- og atvinnuleyfi. Óttast Gissur að þetta verklag hafi tíðkast víðar á íslenska vinnumarkaðnum, að þau fái inn útlendinga í hefðbundna launavinnu sem hafi ekkert með þjónustu að gera. Um einhvern meiriháttar misskilning sé að ræða, sem þurfi að leiðrétta.

Hann segir Vinnumálastofnun hafa sýnt því skilning að Impregilo og önnur fyrirtæki á Kárahnjúkasvæðinu hafi átt í erfiðleikum með að manna störf með Íslendingum, og því leitað út fyrir landsteinana. Af þeim sökum skjóti það skökku við að Íslendingum sé sagt upp og útlendingar ráðnir í þeirra störf með vafasömum hætti.