EVA Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, hefur sent Morgunblaðinu eftirfarandi athugasemdir: Athugasemdir við ummæli forstjóra OR Í fréttum Morgunblaðsins mánudaginn 14.

EVA Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, hefur sent Morgunblaðinu eftirfarandi athugasemdir:

Athugasemdir við ummæli forstjóra OR

Í fréttum Morgunblaðsins mánudaginn 14. febrúar síðastliðinn komu fram rangfærslur í máli Guðmundar Þóroddssonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.

Fyrst og fremst vekur það furðu að forstjóra Orkuveitunnar sé ekki kunnugt um annað ljósleiðaranet á höfuðborgarsvæðinu sem unnt er að tengja við 40 þúsund heimili, þ.e. ljósleiðaranet Símans. Alrangt er að Síminn sé á móti lagningu annars kerfis og sé á þeirri skoðun að einokun eigi að gilda.

Síminn hefur aftur á móti margítrekað bent á að uppbygging neta þurfi að vera á jafnréttisgrundvelli. Svo er ekki í tilfelli OR, þar sem fyrirtækið aðgreinir ekki fjarskiptarekstur frá hita og rafmagni í bókum sínum. Fyrirtækið niðurgreiðir fjarskiptastarfsemi sína með tekjum af hita og rafmagni.

OR hefur tapað verulega á sínum fjarskiptarekstri og kostnaðarforsendur og afskriftarreglur þeirra samræmast ekki því sem gengur og gerist í fjarskiptarekstri. OR ber að aðskilja fjarskiptarekstur sinn frá annarri starfsemi ella munu orkunotendur greiða niður fjarskiptastarfsemi fyrirtækisins."

Athugasemdir við ummæli Skarphéðins Berg

Í fréttum Morgunblaðsins mánudaginn 14. febrúar síðastliðinn kom fram ákveðinn misskilningur í máli Skarphéðins Berg Steinarssonar, stjórnarformanns 365 ljósvakamiðla, um að Síminn hefði neitað að dreifa stafrænni dagskrá þeirra. Í fréttinni segir orðrétt:

"Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður 365 ljósvakamiðla, segist hafa óskað bréflega eftir þessu en fengið þau svör að það kæmi ekki til greina. Síminn einn myndi veita þjónustu á ljósleiðara sem hann hefði kostað.

Þessi ummæli eru augljóslega misskilningur. Samningaviðræður á milli Símans og 365 ljósvakamiðla hafa staðið yfir til þess einmitt að ræða dreifingu á þeirra efni um ljósleiðara Símans. Kjarnastarfsemi Símans er dreifing, enda hefur Síminn mikinn áhuga á að dreifa efni fyrir handhafa efnis á markaðnum.