LÆKNADEILD Háskóla Íslands og Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) auglýstu um helgina nýja prófessorsstöðu í krabbameinslækningum við læknadeild en með starfsaðstöðu á LSH.

LÆKNADEILD Háskóla Íslands og Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) auglýstu um helgina nýja prófessorsstöðu í krabbameinslækningum við læknadeild en með starfsaðstöðu á LSH. Tekið er fram í auglýsingunni að prófessorinn muni jafnframt gegna starfi yfirlæknis á lyflækningasviði II á spítalanum.

Sigurður Björnsson er yfirlæknir á lyflækningasviði krabbameinslækninga á LSH. Að sögn Jóhannesar M. Gunnarssonar, framkvæmdastjóra lækninga á LSH, er ekki verið að auglýsa starf hans, heldur er hér um nýja stöðu að ræða.

"Prófessorsstarfið er nýtt og samkvæmt samningi við Háskólann tryggjum við prófessorum yfirlæknisstöðu," segir Jóhannes.

Spurður hvort gert sé ráð fyrir að tveir yfirlæknar verði yfir þessu sviði segir Jóhannes hugsanlegt að svo verði nema þá að Sigurður sæki um og fái þessa stöðu.

"Það er alveg hugsanlegt að það geti orðið tveir [yfirlæknar] en það þarf bara að skilgreina starfssviðið í starfslýsingu," segir hann.

Að sögn Jóhannesar er þetta í fyrsta skipti sem búin er til prófessorsstaða í þessari sérgrein og er þetta gert vegna samstarfs spítalans og læknadeildar.

Spurður hvort með þessari nýju stöðu sé verið að ganga á starfssvið Sigurðar Björnssonar svarar Jóhannes neitandi.