NEC-bikarinn.

NEC-bikarinn.

Norður
K
ÁD432 S/Enginn
G753
G76

Vestur Austur
G7653 ÁD9842
KG986 10
D86 K4
-- KD84

Suður
10
75
Á1092
Á109532

Sveit frá Ísrael sigraði pólsk/rússneska stórmeistara í úrslitaleik um NEC-bikarinn í Yokohama. Sigursveitin er skipuð bræðrunum Israel og Doran Yadlin, Michael Barel og Migry Campanile, en þessi sama sveit komst einnig í úrslitaleikinn í fyrra og beið þá lægri hlut fyrir kínverska kvennalandsliðinu. Silfursveitin í ár var skipuð hinum margreyndu Pólverjum Balicki/Zmudzinski og Rússunum Gromov/Dubinin.

Spilið að ofan kom upp í fyrstu lotu úrslitaleiksins. Á öðru borðinu sögðu Yadlin-bræður fjóra spaða í AV og sagnhafi fékk 12 slagi þegar norður reyndi að taka tvo slagi á hjarta í byrjun.

Hinum megin lentu Balicki og Zmudzinski í ógöngum eftir tvílita hindrunaropnun vesturs:

Vestur Norður Austur Suður
Balicki Campanile Zmudz. Barel
-- -- -- Pass
2 hjörtu * Pass 2 spaðar * 3 lauf
Pass Pass Dobl Allir pass

Opnun Balickis á tveimur hjörtum lofar minnst 5-5 skiptingu í hjarta og einhverjum öðrum lit, og svar Zmudzinskis á tveimur spöðum var "leitandi" og ekki krafa. Barel blandaði sér í sagnir með þremur laufum, sem Zmudzinski doblaði til sektar, enda taldi hann ósennilegt að hliðarlitur makkers væri spaði. Barel átti í engum vandræðum með að taka níu slagi, sem gaf NS 470 og Ísraelsmenn unnu þannig 14 IMPa á spilinu.