Þingmenn Vinstri-grænna vara við að Ríkisútvarpið fari á fjárlög en útiloka ekki einhverjar breytingar á innheimtu afnotagjalda.
Þingmenn Vinstri-grænna vara við að Ríkisútvarpið fari á fjárlög en útiloka ekki einhverjar breytingar á innheimtu afnotagjalda. — Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KOLBRÚN Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, telur afnotagjöld Ríkisútvarpsins af hinu góða. "Á þann hátt finnur almenningur að hann á útvarpið. Útvarpið tilheyrir honum.

KOLBRÚN Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, telur afnotagjöld Ríkisútvarpsins af hinu góða. "Á þann hátt finnur almenningur að hann á útvarpið. Útvarpið tilheyrir honum. Ég held að þetta séu verulega þýðingarmikil tengsl á milli þjóðarinnar sem á þjóðarútvarpið og stofnunarinnar sjálfrar. Ég geld varhug við því að þessi tengsl séu rofin. Þau yrðu rofin ef Ríkisútvarpið yrði sett inn á fjárlög," sagði hún á Alþingi í gær.

Ríkisstjórnin gæti þannig haldið RÚV í spennitreyju fjárveitingarvaldsins. Ögmundur Jónasson, einnig þingmaður Vinstri-grænna, sagðist hafa miklar efasemdir um að Ríkisútvarpið færi algjörlega á fjárlög.

Guðjón Arnar Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, vill tryggja Ríkisútvarpinu tekjur og það yrði að vera festa í þeim tekjum. Ekki mætti vera óvissa um það um hver áramót hver útgjaldaramminn væri. Innheimtukerfi í formi afnotagjalda væri mjög dýrt. Betri leiðir væru örugglega til.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði sinn flokk ekki á móti því að afnema afnotagjöldin. Samfylkingin hefði talað um það að afnotagjöldin væru á margan hátt gölluð og jafnvel úrelt.

Óljósar forsendur

Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna gagnrýndu Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í gær fyrir leynd sem þeir sögðu að hvíldi yfir gerð frumvarps um Ríkisútvarpið og á að leggja fram á þessu vorþingi. Forsendur umræðunnar væru óskýrar og ráðherra gæfi óljós skilaboð um hvað fælist í frumvarpinu í viðtölum við fjölmiðla.

Notuðu þingmenn tækifæri til að ljá máls á þessu þegar Guðjón Arnar Kristjánsson flutti þingsályktunartillögu um Ríkisútvarpið í fimmta sinn. Vilja þingmenn Frjálslynda flokksins að þingið álykti í þá veru að stofnuð verði nefnd til að semja frumvarp um breyttan rekstur RÚV.

Mörður Árnason sagði engan vita hvernig vinnu við frumvarpið liði né hverjir væru að semja það nema menntamálaráðherra. Fjölmiðlanefndin hefði ekki fjallað um það og útvarpsstjóri væri ekki með í ráðum.

Af ummælum Þorgerðar Katrínar í fjölmiðlum mætti ráða að hún vissi ekki sjálf um hvað það yrði.

"Þetta mál er unnið með leynd og pukri þrátt fyrir að vorið og hálft sumarið hafi verið lagt undir fjölmiðlaumræðu sem sannaði eitt og ég held að allir geti verið sammála um; að fjölmiðlamál af þessu tagi - ekki síst þegar fjallað er um Ríkisútvarpið sem er eign okkar allra - eigi að ræða opinberlega. Það eiga allir að koma að þeirri umræðu," sagði Mörður.

Ekki talað um hlutafélag

Kolbrún Halldórsdóttir sagði umræðugrundvöllinn óljósan þar sem þingmenn hefðu ekkert frumvarp í höndunum. Þorgerður Katrín væri ekki einu sinni búin að leggja fram frumvarpsdrög áður en hún viki að breytingum á afnotagjöldum í fjölmiðlum.

Hún sagði jákvætt að finna ekkert í boðskap menntamálaráðherra í viðtali við Morgunblaðið á sunnudaginn um hlutafélagavæðingu RÚV. "Að því leytinu til segi ég: Guð láti gott á vita. Við skulum vona að Ríkisútvarpið fái að halda áfram að vera í þjóðareign og ríkisstjórnin ani ekki með það út á einkavæðingarmarkað."