Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ræðir við Magnús Gehringer, framkvæmdastjóra X-Orku, og Runólf Maack, stjórnarformann í Kalina-varmaorkuverinu.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ræðir við Magnús Gehringer, framkvæmdastjóra X-Orku, og Runólf Maack, stjórnarformann í Kalina-varmaorkuverinu. — Morgunblaðið/Kristján
VALGERÐUR Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, opnaði í gær þekkingarmiðstöð í varmaorkutækni í Kalina-varmaorkuverinu á Húsavík en orkuverið er það fyrsta í heiminum sem nýtir Kalina-tæknina til raforkuframleiðslu úr jarðvarma.

VALGERÐUR Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, opnaði í gær þekkingarmiðstöð í varmaorkutækni í Kalina-varmaorkuverinu á Húsavík en orkuverið er það fyrsta í heiminum sem nýtir Kalina-tæknina til raforkuframleiðslu úr jarðvarma. Jafnframt var gengið frá samningum við einkaréttarhafa Kalina-tækninnar, ástralska fyrirtækið Exergy Inc., Orkuveitu Húsavíkur og Exorku um rekstur og fjármögnun þekkingarmiðstöðvarinnar. Exorka ehf. var stofnuð á Húsavík í apríl 2001 en markmið fyrirtækisins er markaðssetning á tæknilausnum og sala á raforkuverum sem byggjast á Kalina-tækninni til framleiðslu á raforku úr lághita.

Mikil sóknarfæri eru á næstunni í aukinni nýtingu á jarðhita

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði engan vafa leika á því að mikil sóknarfæri væru á næstu árum í aukinni nýtingu á jarðhita, bæði hér á landi og erlendis. Víða væri að finna svæði hér á landi þar sem góðar líkur væru á að sjóðandi lághita væri að finna. Valgerður sagði að virkjun lághita til raforkuframleiðslu samhliða virkjun háhitasvæðanna gæti í mörgum tilvikum verið mjög hagkvæmur kostur. Þá hefði ímynd jarðhitanýtingar verið afar jákvæð hér á landi og aukin jarðhitanotkun síðustu áratuga skipt sköpum í hag heimilanna og skilað þjóðarbúinu á annan tug milljarða króna árlega í sparnaði ef miðað væri við hefðbundna olíuhitun. Valgerður sagði jafnframt að Íslendingar þyrftu að taka sér tak í bættri orkunýtingu, ekki síst við nýtingu háhitans og Kalina-tæknin við raforkuframleiðslu væri ágætt dæmi um það á hvern hátt unnt væri því að að nýta betur jarðvarmann.Þekkingarmiðstöðin á Húsavík er starfrækt með hátæknifyrirtækjum, sérfræðingum og háskólum og býður viðskiptavinum sínum fræðilega innsýn í Kalina-tæknina og rekstrarþjálfun í tengslum við orkuverið á Húsavík. Einnig verður lögð áhersla á verklegar og fræðilegar rannsóknir á varmanýtingu með Kalina-tækninni. Magnús Gehringer, framkvæmdastjóri Exorku, sagði að markaðssvæði félagsins væri Evrópa og Suður-Ameríka en þar hefur félagið tryggt sér sölurétt á Kalina-tækninni. Forskot félagsins á alþjóðamarkaði felst ekki síst í rekstrartengslum við orkuverið á Húsavík.

Magnús sagði að í Evrópu væri nokkurs konar gullæði í gangi en með hækkandi olíuverði og Kyoto-bókun væru ríkisstjórnir að leita leiða til að minnka útblástur koltvísýrings. Miklir möguleikar væru í Þýskalandi og einnig á Englandi. "Við munum selja að minnsta kosti eitt orkuver til Þýskalands á þessu ári og nokkur önnur eru í undirbúningi, þar sem unnið er að hagkvæmnisathugunum. Við reiknum jafnframt með að geta klárað glatvarmaorkuver í Bretlandi."

Sorglegt hvað íslenskir fjárfestar hafa sýnt lítinn áhuga

Hjá Exorku starfa 9 manns, þar af 6 á Íslandi, á Húsavík, Akureyri og Reykjavík en erlendis í Þýskalandi og Englandi. Magnús sagði að eftir því sem fyrirtækið stækkaði þyrfti að fjölga starfsfólki en þó gæti orðið erfitt að finna sérfræðinga í varmatækni. Hann sagði að einnig þyrfti félagið fyrirgreiðslu og fjármögnun við hæfi. "Það er sorglegt hvað íslenskir fjárfestar hafa sýnt þessu lítinn áhuga og verið hikandi. Áhuginn erlendis er mun meiri en ég er viss um það mun breytast um leið og erlendir fjárfestar verða komnir inn," sagði Magnús.

Samhliða opnun þekkingarmiðstöðvarinnar á Húsavík er haldin tveggja daga ráðstefna í varmaorkutækni og fjölnýtingu á varma. Ráðstefnan hófst í gær og koma þátttakendur víða að en auk Íslands má nefna Danmörku, Þýskaland, Frakkland, Bandaríkin og Ástralíu. Heiðursgestur ráðstefnunnar er höfundar Kalina-tækninnar, Rússinn Dr. Alexander Kalina, sem nú er búsettur í Bandaríkjunum. Hann opnaði formlega nýjan vef félagsins, xorka.com.