SNÆFELL lagði KFÍ að velli, 93:80, í lokaumferð 17. umferðar Intersport-deildarinnar á Ísafirði í gær, og þar með er ljóst að KFÍ er fallið úr úrvalsdeild og leikur í 1. deild á næstu leiktíð. Stykkishólmsliðið er í öðru sæti með 26 stig á eftir Íslandsmeistaraliði Keflavíkur sem er með 28 stig.

Vonir Ísfirðinga um að halda sér í deildinni voru litlar fyrir leikinn og nokkuð ljóst að þennan leik þyrftu þeir að vinna ef þeir ætluðu að eiga möguleika á að halda sér í deildinni. Snæfellingar voru hinsvegar í góðum málum í deildinni, aðeins 4 stigum á eftir toppliði Keflvíkinga. Leikurinn byrjaði af krafti, bæði lið voru að spila fína vörn og hraður og skemmtilegur körfubolti spilaður. Joshua Helm fór fyrir sínum mönnum í stigaskorun, skoraði fyrstu níu stig heimamanna. Fyrri hálfleikur var almennt mjög jafn og leikurinn í járnum. Pétur Már Sigurðsson átti þrjár góðar 3ja stiga körfur fyrir KFÍ undir lok fyrsta leikhluta og átti hann góðan leik, spilaði fína vörn og var duglegur að finna liðsfélaga sína.

Gestirnir voru þó yfir eftir tvo leikhluta með tveimur stigum. Í seinni hálfleik tóku Snæfellingar öll völd á vellinum. Calcin Clemmons tókst að stöðva Joshua Helm og þar með lama sóknarleik Ísfirðinga fyrstu mínútur þriðja leikhluta. Þarna náðu gestirnir frá Stykkishólmi forskoti sem þeir áttu eftir að halda allan leikinn. Eftir þennan frábæra leikkafla gestanna áttu Ísfirðingar hreinlega ekki nógu mikla orku til þess að komast aftur inn í leikinn, verðskuldaður sigur Snæfellinga, 80:93.

"Hugarfarið hjá okkar mönnum breyttist í seinni hálfleik. Við fórum að spila vörn og náðum að stoppa Joshua Helm," sagði Bárður Eyþórsson þjálfari Snæfellinga. "KFÍ er alls ekki lélegt lið, það var allt annað að spila á móti þeim núna en það var að spila á móti þeim fyrir jól," bætti Bárður við.

Baldur Ingi Jónasson þjálfari KFÍ var að vonum ekki sáttur "Ég var sáttur við varnarleikinn hjá okkur í fyrsta leikhluta, ágætlega sáttur í öðrum leikhluta, en í þeim þriðja þá hrundi þetta allt. Það var eitthvað sálrænt sem klikkaði hjá okkur í byrjun seinni hálfleiks, því við spiluðum eins og hauslausar hænur þá," sagði Baldur Ingi.

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar