Víkverja þykir það sæta miklum tíðindum að íþróttafréttamenn sjónvarpsstöðvanna skuli nú teljast meðal helstu verndara íslenskrar tungu.

Víkverja þykir það sæta miklum tíðindum að íþróttafréttamenn sjónvarpsstöðvanna skuli nú teljast meðal helstu verndara íslenskrar tungu.

Víkverji er að sjálfsögðu hlynntur því að íslenska sé töluð í íslenskum fjölmiðlum og að þeir leggi áherslu á "að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli", eins og kveðið er á um í útvarpslögunum.

Þótt það kunni að vera erfitt að tala lýtalausa íslensku nánast samfleytt í tæpar tvær klukkustundir í beinni útsendingu hlýtur það að vera lágmarkskrafa að íþróttafréttamenn reyni eftir megni að vanda mál sitt.

Víkverji hefur horft á fótboltaleiki á Stöð tvö og Sýn í mörg ár og hefur ekki orðið var við að fréttamennirnir leggi áherslu á að allt tal og texti sé á lýtalausri íslensku. Þvert á móti hefur honum blöskrað metnaðarleysi íþróttafréttamanna í þessum efnum. Það hvarflar stundum að honum að þeir hugsi á ensku eða að þeir telji sig vaxa í áliti hjá fótboltaáhugamönnum temji þeir sér enskuskotið málfar.

Dæmin eru mýmörg: "mörkin telja", "Giggs tekur hann á", "Arsenal leiðir í hálfleik" o.s.frv. Málvöndunarmenn hafa margoft fjallað um þessar málvillur í fjölmiðlum. Samt halda fréttamennirnir áfram að grafa undan íslenskunni eins og þeim sé borgað fyrir það og virðast líta á ábendingarnar sem gamaldags nöldur.

Fréttamennirnir hafa nú tekið upp þá ensku málvenju að eintöluorð yfir hópa eða lið taka með sér fleirtölumyndir sagna. Nýleg dæmi: "Arsenal byrja leikinn", "Villa í sókn og fá horn", "Arsenal fara með þrjú mörk í hálfleik".

Víkverji dregur í efa að íslensk börn tali svona en telur líklegt að þau læri þetta af fréttamönnunum. Má draga þá ályktun af þessum málspjöllum að íslenskunni stafi e.t.v. meiri hætta af íslenskum fréttamönnum en enskum þulum í sjónvarpi?