FRÉTTIRNAR berast hratt úr hinum stóra heimi, ekki síst með hjálp netsins. Þægilegt er að skoða fréttamiðlun á Yahoo! og Google þar sem safnað er saman heitustu fréttunum úr heimi dægurmenningarinnar og öllu hinu líka.

FRÉTTIRNAR berast hratt úr hinum stóra heimi, ekki síst með hjálp netsins. Þægilegt er að skoða fréttamiðlun á Yahoo! og Google þar sem safnað er saman heitustu fréttunum úr heimi dægurmenningarinnar og öllu hinu líka. Engar fréttir eru góðar fréttir í sumum tilvikum eins og blaðamaður á Fréttavef Morgunblaðsins mbl.is fékk að reyna eftir að hafa skrifað frétt um sigurvegara nýjustu þáttaraðar Kapphlaupsins mikla ( Amazing Race ). Verið er að sýna þáttaröðina hér á Stöð 2 og að vonum voru margir ósáttir við að frétta úrslitin áður en til lykta drægi hérlendis. Þessi frétt hefur birst víða á vefmiðlum og er oft erfitt að komast hjá því að lesa svona "óæskilegar" fréttir ef Netið er notað mikið til fréttamiðlunar.

Margir veruleikaþættir af þessu tagi eru í gangi og er aðalspennan oft að vita hver standi einn eftir í lokin. Nýr þáttur af America's Next Top Model á að hefjast á Skjá einum á morgun. Ég varð fyrir því óláni í gær að komast að því hver yrði næsta ofurfyrirsæta Bandaríkjanna samkvæmt þættinum. Ég var að lesa alls óskylda frétt um tískusýningu Diesel í New York á Fashion Wire Daily á Netinu þegar nafn sigurvegarans var nefnt. Viðkomandi lenti nefnilega í deilu við tískuritstjóra hjá New York Times um sæti, sem lofar góðu um dramað í næstu þáttaröð.

Ég varð svekkt í fyrstu en var fljót að jafna mig. Ég held að það verði alveg jafngaman að horfa á þættina þó að ég viti hver vinni. Flest sjónvarpsefni er hvort eð er fremur fyrirsjáanlegt og á það oft líka við svokallaða veruleikaþætti.

Ég var líka búin að lesa það á New York Times að Carrie myndi ekki enda með rússneska listmálaranum heldur Mr. Big, áður en lokaþátturinn var sýndur hérlendis. Aftur fékk ég þessar fréttir alveg óvart og fannst það bara allt í lagi. Ég lifði þetta líka af og hefði sjálf getað spáð fyrir um endalokin. Það er ekki tilefni til að æsa sig yfir svona hlutum, þetta er nú bara sjónvarpsefni.

Að lokum vil ég geta þess að ég er búin að bíða lengi spennt eftir nýjum þætti af America's Next Top Model og viðurkenni að ég varð svekkt þegar Skjár einn sveik það sem hann var búinn að auglýsa og hætti við sýningu síðasta miðvikudag. Eins gott að stöðin standi við það að sýna fyrsta þáttinn á morgun. Engin önnur stöð hringlar svona með dagskrána hjá sér. En já, þetta er bara sjónvarp.

Inga Rún Sigurðardóttir