Karl Th. Birgisson
Karl Th. Birgisson
Karl Th. Birgisson fjallar um skoðanakannanir: "Fjölmiðlar mega auðvitað gera allar þær skoðanakannanir sem þá lystir, en þeir hljóta um leið að sýna samfylkingarfólki og lýðræðinu þá kurteisi, að þykjast ekki vera að gera kannanir um eitthvað sem þær eru ekki um."

Á UNDANFÖRNUM vikum hafa fjölmiðlar birt skoðanakannanir, sem lesendum er sagt að séu um komandi formannskjör í Samfylkingunni og hafi jafnvel forspárgildi um það. Svo sérkennilegt hefur þetta verið og svo frjálslegar hafa túlkanir verið að ekki verður orða bundizt.

Síðast birtist í tímaritinu Mannlífi Gallup-könnun um hæfni tveggja frambjóðenda til að gegna formennsku í Samfylkingunni.

Niðurstöður hennar hafa menn svo túlkað eins og um vísindi væri að ræða.

Skoðum raunverulegar tölur. Úrtak í könnun Gallup var um 1.300 manns.

Svarendur voru um 800.

Þeir sem tóku afstöðu til þessarar spurningar voru um 500.

Í sama spurningavagni mældist fylgi Samfylkingarinnar um þriðjungur þjóðarinnar. Sem aftur þýðir að af þessum 500, sem svöruðu spurningu um formannskjör í Samfylkingunni, má reikna með að um 165 séu stuðningsmenn eða kjósendur flokksins.

Einhver myndi segja að 165 manna úrtak væri ekki alveg boðlegt, en málið versnar við nánari skoðun.

Í síðustu þingkosningum fékk Samfylkingin tæplega 60 þúsund atkvæði.

Flokksmenn eru um 14 þúsund, þ.e. um fjórðungur þeirra sem kjósa flokkinn.

Sem aftur þýðir að af þessum 165 í könnuninni, sem segjast kjósa flokkinn, má reikna með að u.þ.b. 40 séu í flokknum, þ.e. fái í reynd að kjósa um formann.

40 manns er, trúi ég, úrtak í smæsta lagi.

Könnunin, og hinar sem á undan fóru, hefur ekkert gildi sem "könnun um formannskjör í Samfylkingunni".

Kosning formanns Samfylkingarinnar er lýðræðislegasta og merkilegasta aðferð sem þekkist í íslenzkum stjórnmálaflokki. Þar fá allir félagar að kjósa, en ekki örlítill hluti á fundum.

Fjölmiðlar mega auðvitað gera allar þær skoðanakannanir sem þá lystir, en þeir hljóta um leið að sýna samfylkingarfólki og lýðræðinu þá kurteisi að þykjast ekki vera að gera kannanir um eitthvað sem þær eru ekki um.

Karl Th. Birgisson fjallar um skoðanakannanir