ÚTGJÖLD Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) á síðasta ári voru 273 milljónir kr. umfram fjárheimildir eða 1% samkvæmt nýju bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 2004.

ÚTGJÖLD Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) á síðasta ári voru 273 milljónir kr. umfram fjárheimildir eða 1% samkvæmt nýju bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 2004. Sparnaðarkrafa ársins var um 3,0% og hefur því náðst að lækka rekstrarkostnað spítalans frá fyrra ári um það bil um 2,0%. Launakostnaður á spítalanum var 18.526 milljónir í fyrra og jókst um rúmlega 200 milljónir frá árinu á undan.

Ráðist var í fjölmargar sparnaðaraðgerðir á spítalanum á seinasta ári, m.a. með því að segja upp starfsfólki til að ná niður launakostnaði, leggja af vaktir, draga úr yfirvinnu og fleiru. Náðu þessar aðgerðir til alls 500-600 starfsmanna. Auk þess voru settar innkaupareglur, útboðum fjölgað, útbúinn lyfjalisti, hert skilyrði fyrir notkun nýrra lyfja o.fl.

Rekstur flestra sviða spítalans er innan áætlunar en á þremur sviðum er rekstrarkostnaðurinn umfram fjárheimildir en það eru lyflækningasvið I, slysa- og bráðasvið og rannsóknastofnun LSH.

"Góður árangur í rekstri og afköstum"

"Mér finnst við vera að ná mjög miklum árangri, bæði í rekstrinum og afköstum," segir Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga á LSH. "Umtalsverð aukning hefur náðst í flestum tegundum aðgerða og biðlistar hafa náðst niður svo þeir eru varla lengur til vandræða," segir hann en bendir þó á að á því sé sú undantekning að enn sé langur listi eftir skurðaðgerð á augasteini. Þar hafi biðtíminn þó einnig styst. "Við erum þeirrar skoðunar að það sé býsna góður árangur að ná rekstrarkostnaði niður um 2%," segir Jóhannes. Að sögn hans virðist þó vera innbyggð hækkun á tilteknum liðum sem virðist nánast náttúrulögmál að hækki alltaf meira en forsendur fjárlaga gera ráð fyrir, og nefnir lyfjaverð og framlag til lífeyrissjóða, sem sjúkrahúsið fái ekki bætt.

212 bíða eftir hjartaþræðingu

Komum á göngudeildir spítalans fjölgaði um 11,6% í fyrra frá árinu á undan. Þá fjölgaði komum um 3,3% á slysa- og bráðamóttökur spítalans en þeim fækkaði hins vegar um 4,9% á dagdeildir. Í greinargerð Önnu Lilju Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra fjárreiðna, kemur fram að með fjölgun skurðaðgerða síðustu tvö árin fækkaði nánast á öllum biðlistum eftir þjónustu spítalans. Nú bíða 107 einstaklingar eftir gerviliðaaðgerð á hné sem þýðir rúmlega sex mánaða bið. Þá bíða 212 einstaklingar eftir hjartaþræðingu sem er fjölgun frá árinu á undan en það samsvarar tæplega þriggja mánaða biðtíma að meðaltali. Færri hjartaþræðingar voru gerðar í fyrra en árið á undan eða 931 samanborið við 1.003 á árinu 2003, sem er 7,2% fækkun.

Gerðar voru 14.675 skurðaðgerðir á spítalanum í fyrra sem er lítilsháttar aukning frá árinu á undan og fæðingum á spítalanum fjölgaði úr 2.865 árið 2003 í 2.934 í fyrra.

Launakostnaður á spítalanum var 18.526 milljónir í fyrra og jókst um rúmlega 200 milljónir frá árinu á undan.