"Eivør hefur einstaka rödd, hljómmikla og tæra, og raddbeiting hennar er svo litrík að maður nýtur hvers tóns," segir Jónas Sen m.a.
"Eivør hefur einstaka rödd, hljómmikla og tæra, og raddbeiting hennar er svo litrík að maður nýtur hvers tóns," segir Jónas Sen m.a. — Morgunblaðið/Árni Torfason
Eivør Pálsdóttir og KaSa fluttu tónlist eftir Eivøru ásamt tveimur þáttum úr píanókvintett eftir Jón Ásgeirsson. Sunnudagur 13. febrúar.

EIVØR Pálsdóttir kom fram í Salnum í Kópavogi ásamt KaSa-hópnum og söng lög eftir sjálfa sig, meðal annars í ágætum, smekklegum útsetningum Árna Harðarsonar, Péturs Grétarssonar og Kjartans Valdimarssonar, en ekki Hilmars Arnar Hilmarssonar eins og auglýst hafði verið. Þau Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, Sif M. Tulinius fiðluleikari, Bryndís Björgvinsdóttir sellóleikari, Helga Þórarinsdóttir víóluleikari og Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari spiluðu með Eivøru þegar við átti, og fluttu líka tvo þætti úr kvintett eftir Jón Ásgeirsson. Kvintettinn var fallega samansettur og hljóðfæraleikararnir voru með allt sitt á hreinu; túlkunin einkenndist í hvívetna af öryggi, nákvæmni og innlifun.

Ég verð að viðurkenna að ég hef aðeins einu sinni heyrt Eivøru á tónleikum, en það var þegar hún kom fram á afmælistónleikum Söngskólans í Reykjavík í fyrra. Ég hef hins vegar ekki heyrt hana flytja eigin lög á sviði og verð að segja að frammistaða hennar kom mér verulega á óvart, jafnvel þó ég eigi diskinn hennar Krákuna, sem ég elska. Eivør hefur einstaka rödd, hljómmikla og tæra, og raddbeiting hennar er svo litrík að maður nýtur hvers tóns. Túlkun hennar er þannig að sérhvert blæbrigði segir heila sögu, og þegar við bætist að söngur hennar er óvenju tilfinningaþrunginn og einlægur, ja, þá fellur maður bara í stafi. Þetta voru frábærir tónleikar; lögin voru kannski misjafnlega merkileg en flest voru afar seiðandi og Eivør söng þau öll með þvílíkum tilþrifum að unaður var á að hlýða.

Ég ætla ekki að spá neinu um framtíðina hér, en það kæmi mér ekki á óvart að Eivør næði verulega langt á framabrautinni. Hún hefur allt til að bera, heillandi sviðsframkomu, gríðarlega tónlistarhæfileika og stórfenglega rödd. Megi henni ganga sem best í framtíðinni.

Jónas Sen