Hnúfubakar festast reglulega í netum, en óvenju mikið hefur verið af hnúfubak og höfrungi í grennd við Grímsey síðustu vikurnar.
Hnúfubakar festast reglulega í netum, en óvenju mikið hefur verið af hnúfubak og höfrungi í grennd við Grímsey síðustu vikurnar. — Morgunblaðið/Kristján
ÓVENJU mikið virðist vera af höfrungi og hnúfubak í kringum Grímsey og segist sjómaður með tæplega 40 ára reynslu aldrei hafa séð annað eins af hval á þessu svæði.

ÓVENJU mikið virðist vera af höfrungi og hnúfubak í kringum Grímsey og segist sjómaður með tæplega 40 ára reynslu aldrei hafa séð annað eins af hval á þessu svæði. "Það er búið að vera óvenju mikið af höfrungi, ég hef oft séð mikið, en aldrei eins og þetta," segir Gylfi Gunnarsson, skipstjóri í Grímsey.

"Svo hefur verið mjög mikið af hnúfubak, maður hefur verið að sjá sex, átta eða jafnvel upp í tíu stykki saman í einu. Ég hef aldrei séð annað eins, þó maður hafi svo sem séð einn og einn hnúfubak," segir Gylfi. Hann segir greinilegt að þessir hvalir sæki í loðnuna, sem óvenju mikið er af í kringum Grímsey. "Það er langt síðan hefur komið svona mikil loðna á þetta svæði."

"Maður sér mikið af blæstri, og það kom meira að segja einn hnúfubakur upp rétt við bátinn hjá okkur fyrir nokkrum dögum. Ég hef aldrei heyrt önnur eins hljóð, það vældi hátt í honum, ískurhljóð einhverskonar. Við vorum alveg gáttaðir hérna um borð," segir Gylfi.

Höfrungarnir koma einnig mikið upp að bátunum, og segir Gylfi að þeir séu í þúsundavís á svæðinu. Enn sem komið er hefur hann ekki lent í því að hvalir rífi net, en í fyrradag komu tveir höfrungar í netið. "Þeir fara bara á grillið, þeir eru alveg herramannsmatur. Það er bara fengur að fá þetta öðru hvoru svona einn og einn, en maður vill ekki fá þetta í neinu magni."

"Það hefur verið mikil fjölgun í hnúfubaksstofninum á undanförnum áratugum og virðist vera aukning í því að hann sé hér við land að vetrarlagi líka, en annars er það háttur þessara skíðishvala að fara suður á bóginn á veturna," segir Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun. Hann segir að undanfarin ár hafi heyrst af mikilli hnúfubaksgengd á loðnumiðum, og reglulega komi upp tilvik þar sem hvalir rífi loðnunætur.

Gísli segir minna vitað um höfrungana, minna heyrist af þeim frá sjómönnum, kannski vegna þess að þeir þykja ekki eins frásagnarverðir og hnúfubakarnir. Höfrungar eru tannhvalir og éta m.a. þorsk, ýsu og loðnu, en hnúfubakarnir eru skíðishvalir og lifa á svifi og smáum uppsjávarfiski, t.d. loðnu.