Valdís var augljóslega hrærð og óviðbúin er hún tók við BAFTA-verðlaunum sínum á laugardaginn.
Valdís var augljóslega hrærð og óviðbúin er hún tók við BAFTA-verðlaunum sínum á laugardaginn.
VALDÍS Óskarsdóttir kvikmyndaklippari segir það hafa verið hálfgert áfall er hún hlaut hin virtu BAFTA-verðlaun Bresku kvikmyndaakademíunnar fyrir klippingu myndarinnar Eternal Sunshine of the Spotless Mind á laugardagskvöldið.

VALDÍS Óskarsdóttir kvikmyndaklippari segir það hafa verið hálfgert áfall er hún hlaut hin virtu BAFTA-verðlaun Bresku kvikmyndaakademíunnar fyrir klippingu myndarinnar Eternal Sunshine of the Spotless Mind á laugardagskvöldið.

"Mér brá því ég var alls ekki búin að búa mig undir þetta, en svo þegar ég var komin í sætið mitt aftur eftir hringferðina þá var þetta mjög ánægjulegt," sagði Valdís í samtali við Morgunblaðið í gær, en hún kom til Íslands með BAFTA-styttuna glæsilegu í farteskinu síðla sunnudags.

Enginn gæðastimpill

Valdís hefur áður unnið til fjölda viðurkenninga fyrir störf sín en hún segist ekki hafa talið að það væri inni í myndinni að hún hlyti þessi verðlaun þar sem hún hafi verið að keppa við fremstu klippara í heimi og hún hafi auk þess haldið að Bretar myndu verðlauna breska mynd.

Valdís segist ekki vita hvaða áhrif verðlaunin muni hafa á feril hennar enda líti hún ekki á þau sem neinn gæðastimpil.

"Í rauninni fer þetta allt eftir þeirri mynd sem þú ert að klippa," segir hún. "Ég var ofboðslega heppin í Eternal Sunshine of the Spotless Mind , því ég hafði allt það sem ég þurfti til að ná þessu út úr myndinni. Svo getur verið að næsta mynd sem ég fæ verði þannig að ég nái engu út úr henni. Maður getur ekki gert meira og betur en það efni sem maður hefur í höndunum býður upp á."

Komin með gott handrit

Valdís segist nú standa í samningaviðræðum um næsta verkefni en að það geti enn brugðið til beggja vona með það.

"Ég nenni ekki að taka að mér að klippa bíómynd nema ég fái gott handrit og það verður að segjast eins og er að ég fékk bara tvö góð handrit síðastliðið ár. Síðan fékk ég ekki aðra myndina og var of sein með hina. Nú er ég komin með gott handrit í hendurnar og ég er að vona að það gangi upp."

Spurð að því hvort verðlaunin muni ekki styrkja stöðu hennar í þeim samningaviðræðum segist Valdís ekki hafa hugmynd um það. Hún sé því miður búin að semja um launin en það eigi enn eftir að semja um svo til allt annað.

"Annars veit ég ekkert hvaða áhrif þessi verðlaun hafa," segir hún. "Þú ættir frekar að spyrja þann sem hlaut þau á síðasta ári hvaða áhrif þau hafi haft á hann."