Grímólfur Andrésson fæddist í Hrappsey á Breiðafirði 23. febrúar 1909. Hann lést á Droplaugarstöðum 4. febrúar síðastliðinn. Faðir hans var Andrés Hjörleifur Grímólfsson, bóndi og hreppstjóri frá Dagverðarnesi í Dalasýslu, f. í Lómakoti Snæfellsnesi 4. september 1859, d. 27. júní 1929. Móðir Grímólfs var Jóhanna Kristín Bjarnadóttir frá Bjarneyjum á Breiðafirði, f. 10. júlí 1867, d. 10. febrúar 1954. Grímólfur var yngstur 15 systkina. Tíu náðu fullorðinsaldri.

Þegar Grímólfur var níu ára fluttist fjölskyldan til Stykkishólms og þar lauk hann barnaskólanámi. 13 ára byrjaði hann að fara á sjóinn.

Grímólfur kvæntist 23. desember 1935 Þuríði Valgerði Björnsdóttur, f. 18. júní 1917, frá Arney á Breiðafirði. Foreldrar hennar voru Björn Jóhannsson frá Öxney á Breiðafirði og Guðrún Eggertsdóttir frá Fremri-Langey á Breiðafirði. Grímólfur og Þuríður eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Alda Hanna, maki Valdimar Guðlaugsson. Þau eignuðust fimm börn og er eitt látið. 2) Andrés Hjörleifur, á þrjú börn. 3) Guðrún, maki Jón Steinar Snorrason og eiga þau tvær dætur. 4) Anna Birna, maki er Eiríkur Steinþórsson. Þau eiga þrjár dætur. Grímólfur og Þuríður tóku sonardóttur sína, Hjördísi Björgu, í fóstur. Langafabörnin eru 15.

Grímólfur tók smáskipapróf frá Stýrimannaskólanum árið 1935. Hann var fyrst skipstjóri á m/b Gretti sem var gamalt hákarlaskip. Hann átti síðan tvo báta. Brimnes var gert út frá Stykkishólmi og Reykjavík. Hann keypti Baldvin Þorvaldsson sem fékk nafnið Brimnes.

Grímólfur og Þuríður bjuggu í Stykkishólmi til 1963 þegar þau fluttu til Reykjavíkur.

Útför Grímólfs verður gerð frá Langholtskirkju í dag og hefst at höfnin klukkan 13.

Elsku afi minn og fósturfaðir.

Margs er að minnast á liðnum árum. Og sú allra stærsta er þegar þú og amma gerðuð eitt af ykkar góðverkum. En þá tókuð þið mig inn á ykkar heimili, þá nokkurra mánaða kríli, og komuð mér til manns. Stór ákvörðun sem tekin var af heilu hjarta og mikilli góðmennsku

Minnisstæðar eru allar ferðirnar vestur í Stykkishólm. En á hverju sumri var brunað þangað og farið í eyjarnar.

Þín eina sólarlandaferð var farin árið 1991 sem þú og amma fóruð í með okkur. Það var mikið upplifelsi fyrir þig. Þú naust þín í botn þarna og fannst þetta alveg stórkostlegt. Sérstaklega þegar við vorum á einum veitingastað og þjónarnir komust að því að þú værir gamall skipstjóri. Þá fékkst þú þann allra dýrasta fisk sem þeir áttu í boði hússins. Síðan komu þeir með hvern fiskréttinn á fætur öðrum. Þeir vildu að þú smakkaðir flest allt sem þeir áttu. Og ekki nóg með það heldur héldu þeir smá ræðu og allir á staðnum stóðu upp og klöppuðu fyrir þér. Þeir báru mikla virðingu fyrir þér og sýndu það í orði og verki.

Og allar litlu ferðirnar að veiða í Elliðaánum. Og ekki fannst þér það mikil veiði sjómanninum sjálfum.

Á níutíu ára afmæli þínu fékk ég þann heiður að halda afmælið þitt inn á mínu heimili. Og þú bauðst þínum gestum upp á kaffi og flott meðlæti. Og fínn í tauinu eins og alltaf.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Margar eru minningarnar, en, elsku afi minn, þakka þér fyrir allt.

Guð geymi þig.

Hjördís Björg Andrésdóttir.

Elsku afi. Við eigum góðar minningar um þig sem við geymum í brjósti okkar.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgr. Pét.)

Björgvin Már, Jóhanna Soffía og Ágúst Þór.

Elsku Grímólfur. Mig langar til þess að þakka þér fyrir svo ótalmargt, en þær þakkir rúmast ekki allar á prenti.

Frá því ég kynntist ykkur hjónum lá leið okkar Rúrýjar oft til ykkar um helgar. Það var svo gott að fá að koma til ykkar, setjast niður í rólegheitunum, drekka gott kaffi sem þú helltir alltaf upp á og spjalla um heima og geima. Við töluðum um svo margt skemmtilegt enda ekki annað hægt í svona góðum félagsskap. Það var svo gaman að heyra frá uppvaxtarárum þínum, prakkarastrikunum, sem voru ófá, og einnig hvernig þú kynntist henni Þuríði þinni. Ykkar hjónaband hefur alla tíð einkennst af góðmennsku, trausti og vináttu og bara við það að vera í kringum svona gott fólk kennir manni meira en orð fá lýst.

Elsku Grímólfur, þú varst einstakur og góður maður og mikill dýravinur enda sýndi það sig þegar þið Neró settust saman inn í húsbóndaherbergi og spjölluðuð saman. Það var unun að fylgjast með því sem fram fór ykkar á milli, enda var Neró ekki í rónni fyrr en hann hafði fengið sinn tíma með afa.

Elsku Þuríður mín, nú hefur mikið skarð myndast í þínu lífi, en þau ár sem þið hafið átt saman hafa verið yndisleg. Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst svona yndislegu fólki eins og ykkur og, elsku Grímólfur, þú munt alltaf eiga stórt pláss í hjarta mínu sem ég mun varðveita vel. Allur þinn styrkur, vinátta og hlýja, sem þú hefur sýnt öll þessi ár, mun seint úr minni falla.

Elsku Grímólfur ég kveð þig með miklum söknuði en þakka þér fyrir allar þær stundir sem við áttum saman.

Guð blessi minningu hans og fólkið hans allt.

Guðrún Erla Sigurðardóttir.