Halldór Jónsson
Halldór Jónsson
Halldór Jónsson fjallar um þjóðfélagsmál: "Eftir samruna fyrirtækja fer hið meinta samsæri gegn almenningi löglega fram þangað til markaðurinn jafnar metin."

ÉG LES í blöðunum að ég hljóti að vera reiður. Útí olíufélögin fyrir að láta mig borga of mikið. Útí kennara fyrir að taka barnabörnin mín í gíslingu. Útí ríkið fyrir að hýða þá ekki. Útí sveitarfélögin fyrir að borga þeim ekki meira. Útí þjóðfélagið fyrir að borga Páli og Sigrúnu ekki mannsæmandi laun og bætur.

Svo merkilegt sem það er þá er ég fyrir mína parta ekkert sérlega reiður. Líklega er ég bara svona vitlaus. Ég kaupi mitt benzín á sama stað og tryggi hjá sama tryggingafélagi. Ég held ekki að neitt hjálpræði hafi komið til mín frá þessari Samkeppnisstofnun, sem hét nú Verðlagseftirlit ríkisins á tímum óðaverðbólgunnar. Lítil áhrif hafði sú stofnun á verðlagið eins og þjóðlífið nú. Nú ná allir í aurana mína með einhverri afburða þjónustulund, sem allar einokunarstofnanir þjóðfélagsins eiga í svo ríkum mæli. Ég og mínir líkar megum hinvegar bara ekki vera að því að spekúlera í smáatriðum þegar Orkuveitan, benzínið eða bankarnir hækka.

Bankarnir segjast vera sérstakir vinir þínir. Þeir sýna sig vera að greiða þér á auglýsingaskiltunum þegar hagnaðartölurnar gefa frekar til kynna að þeir séu að rýja þig. Þeir vilja allir ginna þig í lánaforaðsdíkið hjá sér, þaðan sem þú átt aldrei afturkvæmt. Þeir gera svo áhlaup á gengi krónunnar fyrir opnum tjöldum. Iðnaðarútvegurinn syngur þá hósíanna en auðvitað borgar bara þú gengisfallið með lakari lífskjörum og verðbólgu. Þeir alþjóðlegu innleysa froðugengishagnað og hækka þannig hlutabréfakauprétt forstjóranna. Það er óþarfi að tala um verðsamráð þegar samruni, samstarf eða útrás er í boði. Þarf ekki fjármálaráðherra að einkavæða skattstofurnar í símastíl til að ná meiri árangri í skattsvikamálunum?

Þessi Samkeppnisstofnun okkar gerði mest lítið þegar Hagkaup keypti Bónus og svo 10-11. Baugskeðjan stjórnar nú öllu matarverði í landinu með vélvæddri einkalögreglu sinni, sem beitir handrukkarakenndum aðferðum í markaðsstýringu sinni. Þeir gera svo út blað, sjónvarp, síma og útvarp til að minna okkur á það á hverjum degi hvað þeir séu góðir við okkur. Og meðfram geta þeir auðvitað mótað þær skoðanir að Ingibjörg sé betri en Össur og Davíð og Halldór sýnu verstir veröld í. Á Flórída kostar flest helmingi minna í WalMart en hjá Baugi. Af hverju?

Margir telja ekki ólíklegt að MorgunFréttablaðið muni sjá dagsins ljós innan tíðar. Hvað ætla stjórnmálamenn og almennir blekbullarar eins og ég að gera þá? Kannske eigum við þá heldur ekki nein mál eftir til að berjast fyrir, hvað þá klappa fyrir á landsfundum

Baugur sannaði mátt sinn glæsilega á síðastliðnu sumri, þegar hann beygði Alþingi og ríkisstjórn landsins. Hann keypti sér gerningaveður Arnþrúðar á Útvarpi Sögu gegn Davíð og fjölmiðlafrumvarpinu. Stöð2 og forseta átti hann vís. Þar kynntust menn ritstjórnarlegu fjölmiðlafrelsi í praxis. Baugur virðist ráða því sem hann ráða vill, með 300 milljónir handbærar ef með þarf.

Nú ætla þeir viðskiptavitringar, sem ég kaus síðast á Alþingi, að selja Símann minn á svona 10 ára rekstrargróða hans. Þeir virðast ekki geta fundið nægilega rekstrarglögga menn í gæðingahóp sínum til að reka hann fyrir sig. Þeir virðast treysta Baugi betur til að græða á fjarskiptum.

Nú hefur tæknin allt í einu gerbreyst. Gamli koparinn getur flutt allt gagnamagn sem þarf að flytja. Það þarf engan ljósleiðara, ekki einu sinni ókeypis eins og Alfreð býður Seltirningum í hvert hús. Og Síminn minn á allan þennan fundna koparfjársjóð. Af hverju er hann betur kominn hjá Baugi OgVodafone en mér og þér?

Seltirningar eiga eina af þeim fáu sjálfstæðu hitaveitum, sem enn eru ekki undir risarækjuhatti Orkuveitunnar. Það er skiljanlega svekkjandi fyrir Alfreð og OR að þeir á Nesinu skuli selja tonnið helmingi lægra en þeir, hvað sem kuldaskeiðum eða hitabylgjum líður. Og græða á því. Ætli meðaltonnið lækki í Kópavogi ef Alfreð kaupir á Nesinu?

Hver er annars munurinn á samráði og samruna fyrirtækja? Fréttablaðið fagnar skiljanlega í hvert sinn er Baugur leggur undir sig nýtt fyrirtæki. Samruna fylgir ekki aukin samkeppni. Eftir samruna fyrirtækja fer hið meinta samsæri gegn almenningi löglega fram þangað til markaðurinn jafnar metin. En þetta á ekki uppá pallborðið hjá Samkeppnisstofnun eða hinum opinberu hugmyndafræðingum frjálshyggjunnar. Þeim virðist þóknanlegt að til séu traust og góð samrunnin fyrirtæki. Eitt verzlunarfyrirtæki virðist því geta verið þeirra vegna svo vel rekið í þjóðarþágu að ekki sé þörf á öðru.

Allt er því best komið í einkaeign samkvæmt bókvísi hugmyndafræðinnar. Fyrst fiskurinn í sjónum, svo ríkisbankarnir, svo Síminn og jafnvel andrúmsloftið næst. En Landhelgisgæsluna, Samkeppnistofnunina og ráðuneytisverzlunarfulltrúana megum við, ég og þú , borga án þess að vera beinir notendur þjónustunnar.

Eitt blað, einn vilja, eitt ríki! Hæstbjóðandi tekur allt.

Skyldi Baugur ekki geta einkavætt Alþingi með tímanum?

Halldór Jónsson fjallar um þjóðfélagsmál