Til 27. febrúar. Safn er opið miðvikudaga til föstudaga frá kl. 14-18 og 14-17 um helgar.

NÚ þegar svo langt er um liðið síðan Duchamp kollvarpaði hugmyndum um það hvað væri list, sýndi fram á mikilvægi hinnar listrænu umgjarðar og tákngerði listina, er svo komið að spurningin um hvað sé list kemur ekki oft upp. Það er orðið viðtekið að það sem listamaðurinn segir að sé list, það er list. Spurningin hefur verið kirfilega afgreidd og aðrar hafa komið í hennar stað. En svo gerist það alveg að óvörum að eitthvað kemur manni á óvart og þessi spurning rís upp frá dauðum: Er þetta list? Spurningin vaknaði í Safni, við skoðun ljósmynda Stephans Stepehensen sem hann nefnir Air Condition, eða eins og Bragi Ólafsson snýr því svo listilega, Er kondisjón.

Í útvarpi á dögunum sagði Stephan frá því að hann hefði verið að vinna ljósmyndaverkefni í Hvalfjarðargöngunum og myndirnar hefðu komið svona vel út, fátt annað hafði hann um myndirnar að segja því miður. Göngin höfðu heldur enga sérstaka þýðingu, það hittist bara svona á. Svo leit þetta svona vel út.

Hvernig þessar ljósmyndir síðan rötuðu í Safn er mér hrein spurn en þetta er í fyrsta sinn sem ég sé verk í þeim húsakynnum sem að mínu mati eiga þangað ekkert erindi. Hér er um að ræða hið óljósa, listræna ekkert-segjandi yfirbragð, innihaldið er ekkert, rétt eins og keisarinn var í engu í ævintýrinu. Framsetning myndanna er einnig óskiljanleg, þær eru slitnar í sundur og ná ekki að skapa neina heild, áhorfandanum er beinlínis gert erfitt fyrir að skoða þær og það er ekki með ásetningi heldur einhver klaufaskapur.

Með góðum vilja má þó lesa út úr þessum myndum einhvers konar viðhorf til samspils náttúru og tækni, þar sem erfitt er stundum að greina hvort myndefnið er af náttúrulegum eða tæknilegum toga. Jarðgöng eru líka málefni sem snerta td. gerð stórvirkjana þannig að hér mætti líka túlka verkin sem hugsanlega náttúruverndarsinnuð. Það dugir þó ekki til að gefa þessum verkum þann tilgang sem þau skortir svo tilfinnnanlega og ég tek ofan fyrir Braga Ólafssyni að geta skrifað svona skemmtilegan og innihaldsríkan texta með myndunum, það þarf sannan listamann til.

Ragna Sigurðardóttir