RAFIQ Hariri var sérstaklega eftirminnilegur maður. Hláturmildur og skemmtilegur. Þannig lýsir Geir H. Haarde fjármálaráðherra kynnum sínum af Rafiq Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, sem ráðinn var af dögum í bílasprengjuárás í Beirút í gær ásamt 12 öðrum.
Geir átti þess kost að hitta Hariri að máli í Beirút haustið 2003 eftir ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Dubai. "Þá stoppaði ég í nokkra daga í Líbanon en ég var þar í opinberri heimsókn. Ég átti þar fundi með forsetanum, forsætisráðherranum, fjármálaráðherranum og fleirum. Forsætisráðherrann var sérstaklega eftirminnilegur maður og gaf sér góðan tíma. Við sátum í rúman klukkutíma og spjölluðum saman," segir Geir.
"Hariri var upphaflega frá Saudi-Arabíu og hafði efnast vel í viðskiptum að því að sagt var. Samtal okkar fór fram á heimili hans, glæsilegum vistarverum í miðbænum. Það var létt yfir honum, hann var hláturmildur og skemmtilegur maður. Það fór afskaplega vel á með okkur þennan tíma," segir Geir.
Hann segist hafa fengið góða yfirsýn yfir þróun mála í Líbanon í samtölunum við Hariri og aðrar ráðherra sem hann ræddi við.