Geir H. Haarde fjármálaráðherra hitti Rafik Hariri að máli á heimili Hariris í Beirút haustið 2003 og var myndin tekin við það tækifæri.
Geir H. Haarde fjármálaráðherra hitti Rafik Hariri að máli á heimili Hariris í Beirút haustið 2003 og var myndin tekin við það tækifæri. — Ljósmynd/Ragnheiður Árnadóttir
RAFIQ Hariri var sérstaklega eftirminnilegur maður. Hláturmildur og skemmtilegur. Þannig lýsir Geir H.

RAFIQ Hariri var sérstaklega eftirminnilegur maður. Hláturmildur og skemmtilegur. Þannig lýsir Geir H. Haarde fjármálaráðherra kynnum sínum af Rafiq Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, sem ráðinn var af dögum í bílasprengjuárás í Beirút í gær ásamt 12 öðrum.

Geir átti þess kost að hitta Hariri að máli í Beirút haustið 2003 eftir ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Dubai. "Þá stoppaði ég í nokkra daga í Líbanon en ég var þar í opinberri heimsókn. Ég átti þar fundi með forsetanum, forsætisráðherranum, fjármálaráðherranum og fleirum. Forsætisráðherrann var sérstaklega eftirminnilegur maður og gaf sér góðan tíma. Við sátum í rúman klukkutíma og spjölluðum saman," segir Geir.

"Hariri var upphaflega frá Saudi-Arabíu og hafði efnast vel í viðskiptum að því að sagt var. Samtal okkar fór fram á heimili hans, glæsilegum vistarverum í miðbænum. Það var létt yfir honum, hann var hláturmildur og skemmtilegur maður. Það fór afskaplega vel á með okkur þennan tíma," segir Geir.

Hann segist hafa fengið góða yfirsýn yfir þróun mála í Líbanon í samtölunum við Hariri og aðrar ráðherra sem hann ræddi við.

Líbanon lykilland

"Líbanon er lykilland í þessum heimshluta, en þar er jafnframt óvenjulegt stjórnarfar, sem byggist á samkomulagi á milli trúarhópa. Þarna var löngum mikil fjármálamiðstöð, sem þeir hafa verið að endurreisa frá því á síðast áratug. Fyrir utan hörmulegt manntjónið er þessi árás áreiðanlega mikið áfall fyrir alla uppbyggingu bæði í fjármálaþjónustu og á öðrum sviðum og bakslag í þeirri þróun sem þarna hefur átt sér stað í átt til friðar frá 1990."