Gerhard Schröder
Gerhard Schröder
GERHARD Schröder, kanslari Þýskalands, sætti í gær harðri gagnrýni vegna hugmynda hans sem kynntar voru um liðna helgi um breytingar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins (NATO).

GERHARD Schröder, kanslari Þýskalands, sætti í gær harðri gagnrýni vegna hugmynda hans sem kynntar voru um liðna helgi um breytingar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins (NATO).

Því var haldið fram í gær í þýskum dagblöðum að tillögur kanslarans væru fallnar til þess eins að skaða samband Þjóðverja og helstu bandamanna þeirra, einkum Bandaríkjamanna.

Peter Struck, varnarmálaráðherra Þýskalands, flutti gestum á öryggisráðstefnu í München boðskap kanslarans. Í ræðu Schröders var því m.a. haldið fram að NATO væri "ekki lengur helsti vettvangur bandamanna beggja vegna Atlantshafsins til að ræða og samhæfa stefnu sína".

Í ræðunni var hvatt til róttækra breytinga á vettvangi NATO til að tryggja eðlilegt samstarf og samráð og gera bandalagið fært um að bregðast við nýjum ógnunum.

Schröder hvatti til þess að Evrópusambandið (ESB) og Bandaríkin settu á stofn nefnd hátt settra og óháðra embættismanna til að kanna hvaða leiðir væru færar til að efla samstarf aðildarþjóðanna beggja vegna Atlantshafsins. Fela ætti nefnd þessari að skila skýrslu í byrjun næsta árs og á grundvelli hennar yrðu unnt "að draga nauðsynlegar ályktanir".

Í ræðunni sagði og að samskipti Evrópusambandsins og Bandaríkjanna nú tækju ekki mið af vaxandi mikilvægi ESB. Þá væru núverandi samráðsferli á vettvangi NATO ekki í samræmi við "aðstæður og kröfur nútímans".

Efasemdir sagðar geta skapað mikinn og djúpstæðan vanda

Í dagblöðum í Þýskalandi í gær sagði að Schröder hefði verið veikur um helgina og því ekki getað flutt ræðuna. Struck hefði hins vegar verið illa undir ræðuna búinn. Þannig hefði hann ekki getað upplýst hvort vilji kanslarans væri sá að Atlantshafsbandalagið yrði leyst upp. Aðstoðarmenn Strucks hefðu verið undrandi og vonsviknir.

Dagblaðið Die Welt birti í gær grein um hina nýju stefnu kanslarans undir fyrirsögninni "Schröder styggir bandamenn innan NATO". Í grein þessari var fullyrt að hugmyndir kanslarans myndu ekki verða til þess að bæta samskiptin við Bandaríkin sem væru stirð fyrir. Bild , mesta lesna dagblað Þýskalands, sagði í forystugrein að mikill vandi og djúpstæður myndi skapast ef forysturíki NATO í Evrópu tæki að efast um tilverugrundvöll bandalagsins.

Dagblaðið Süddeutsche Zeitung tók í svipaðan streng. Sagði það kanslarann hafa unnið mikinn ef ekki óbætanlegan skaða ekki síst sökum þess hvernig hann hefði kosið að setja fram hugmyndir sínar í þessu efni. Taldi blaðið að Schröder hefði látið í það skína að framkvæmdastjóri NATO sinnti ekki starfi sínu sem skyldi.

Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði á ráðstefnunni, sem sérfræðingar í varnarmálum frá fjölmörgum ríkjum heims sóttu, að hugmyndin væri ekki sú að veikja NATO heldur þvert á móti styrkja bandalagið.

Þýsku dagblöðin voru flest sammála um að huga mætti að breytingum innan NATO og treysta samstarf aðildarríkjanna í Evrópu og Bandaríkjanna. Hins vegar voru þær aðferðir sem Schröder lagði til gagnrýndar. Þannig sagði Financial Times Deutschland að fráleitt væri að fela nefnd ráðgjafa að finna svör í þessu efni heldur væri ábyrgðin hjá ríkisstjórnum aðildarríkjanna og leiðtogum þeirra.

Dagblaðið Tagesspiegel sagði í forystugrein á sunnudag að ræða Schröders hefði komið verulega á óvart. Hann hefði ekki einungis gagnrýnt NATO heldur og lýst yfir því að hann teldi ESB mikilvægara fyrirbrigði í alþjóðmálum en Atlantshafsbandalagið.

Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, lét það álit í ljós á ráðstefnunni að samskipti Evrópuríkjanna og Bandaríkjanna væru í prýðilegu horfi á vettvangi bandalagsins. Í viðtali við AFP -fréttastofuna sagði framkvæmdastjórinn að viðurkenna bæri að alvarlegur ágreiningur hefði myndast vegna innrásarinnar í Írak. Hins vegar væri samstarfið gott nú um stundir og Atlantshafstengslin traust.

Hvatt til ESB-umræðu í Noregi

Jan Petersen, utanríkisráðherra Noregs, lýsti þeirri skoðun sinni í gær að "efasemdir" Þjóðverja á vettvangi NATO hefðu í för með sér að hefja yrði á ný umræðu um hvort Norðmönnum bæri að leita eftir aðild að ESB. Væri vilji fyrir því að auka hlut ESB á öryggismálum í álfunni á kostnað NATO hlytu slíkar hugmyndir að vekja athygli og áhyggjur í Noregi. Hið sama hlyti að gilda um önnur ríki NATO sem stæðu utan ESB: Kanada, Ísland og Tyrkland. Þessi ríki gætu staðið uppi sem "jaðarríki" en hvað Norðmenn varðaði væri ljóst að aðildin að Atlantshafsbandalaginu væri önnur meginstoðin í utanríkis- og öryggismálastefnu þjóðarinnar. Hin væri aðildin að Sameinuðu þjóðunum.