Á jökli Víða er hægt að komast í snjó á sunnlenskum jöklum þegar menn hafa nógu góð farartæki. Hér aðstoðar Haukur G. Kristjánsson Ágúst bróður sinn við að komast úr klossunum.
Á jökli Víða er hægt að komast í snjó á sunnlenskum jöklum þegar menn hafa nógu góð farartæki. Hér aðstoðar Haukur G. Kristjánsson Ágúst bróður sinn við að komast úr klossunum. — Morgunblaðið/Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir
Rangárþing eystra | Ákveðið hefur verið að hefja veðurathuganir í Tindfjöllum með það fyrir augum að kanna möguleika á að koma þar upp skíðasvæði.

Rangárþing eystra | Ákveðið hefur verið að hefja veðurathuganir í Tindfjöllum með það fyrir augum að kanna möguleika á að koma þar upp skíðasvæði. Reynist þetta vænlegt skíðasvæði er hugsanlegt að þeir sem standa að skíðasvæðunum á Suðvesturlandi komi að uppbyggingu þess og rekstri.

"Það hefur lengi verið í hugskoti manna hér í sýslu að koma þarna upp skíðasvæði," segir Haukur G. Kristjánsson á Hvolsvelli en hann er áhugamaður um málið og situr í sveitarstjórn. Hann segir að fyrir tveimur árum hafi verið gerð sölu- og markaðsáætlun fyrir skíðasvæðið og en gera þurfi athuganir á veðri áður en lengra yrði haldið. Sveitarstjórn samþykkti að leggja eina milljón króna í verkefnið og eru viðræður í gangi við Veðurstofuna um að hún aðstoði við að vakta veðurstöðina. Stefnt er að því að setja upp stöðina með vorinu. Haukur segir að hugmyndin sé að safna upplýsingum um hitastig og vindhraða í Tindfjöllum í tvö ár til að byggja á ákvarðanir um framhaldið.

Veður geta verið válynd

Þrír skálar eru í Tindfjöllum, tveir í eigu einstaklinga og sá þriðji í eigu björgunarsveita. Hefur verið farið talsvert á svæðið á jeppum og snjóbílum. Haukur segir að þeir sem til þekki segi að veður geti verið válynd á þessum slóðum. Reiknað er með að skíðalyfturnar yrðu frá sex hundruð og upp í ellefu hundrað metra hæð en þar tekur Tindfjallajökull við en hann er liðlega 1.460 metra hár. Einnig er hægt að fara neðar. Óttast Haukur helst að stormar geti komið í veg fyrir að áformin verði að veruleika. Veðurathuganirnar beinast einnig að því að athuga snjóalög en hlýnandi veðurfar hefur bitnað mjög á skíðasvæðum landsins, eins og kunnugt er.

Vegarslóði er upp brattann frá Fljótsdal sem er innsti bær í Fljótshlíð. Haukur segir að athuga þurfi lagfæringar á veginum og hugsanlega nýja leið, í samráði við landeigendur.

"Auðvitað vonar maður það. Ég veit að þeir sem standa að skíðasvæðunum á Suðvesturlandi horfa til þessa möguleika. Þeir munu hugsanlega koma inn í þetta með okkur á einhverju stigi málsins enda er svona verkefni ekki á færi eins sveitarfélags," segir Haukur Kristjánsson.