— Morgunblaðið/Jim Smart
BALDVIN Jónsson, framkvæmdastjóri Food and Fun-hátíðarinnar, segir þátt í matreiðsluþáttaröðinni "Chef's A Field: Culinary Adventures That Begin on the Farm" , sem tekinn var upp á Íslandi í september sl.

BALDVIN Jónsson, framkvæmdastjóri Food and Fun-hátíðarinnar, segir þátt í matreiðsluþáttaröðinni "Chef's A Field: Culinary Adventures That Begin on the Farm" , sem tekinn var upp á Íslandi í september sl., vera gríðar mikla landkynningu en um 16 milljónir Bandaríkjamanna koma til með að sjá þáttinn á þessu ári. Útleggja mætti þáttinn á íslensku "Kokkur á vettvangi; Matreiðsluævintýri sem hefjast á sveitabænum".

Baldvin segir undirtóninn í þættinum undirstrika það hversu langt Ísland sé komið í því að framleiða mat á grundvelli sjálfbærrar þróunar og slíkt stuðli að afburða hráefni. En hráefni er lykilatriði hvað varðar góða matreiðslu að mati kokka segir Baldvin.

Þátturinn verður forsýndur nk. föstudag í tengslum við Food and Fun hátíðina og mun framleiðandi þáttarins, Heidi Hanson, koma til landsins í þeim tilgangi á sérstaka boðsýningu sem verður í Kringlubíói. Í hverjum þætti er fylgst með landsþekktum meistarakokki í Bandaríkjunum ná sér í ferskt eðalhráefni og vinna svo úr því.

Í Íslandsþættinum heimsækir bandarískur meistarakokkur sjómenn á Eskifirði, bændur á Suðurlandi og kynnist aðferðum innfæddra. "Undirtónninn í myndinni er sú sérstaða Íslands að vera núna nánast með alla matvælaframleiðsluna undir þessum formerkjum um sjálfbæra matvöruframleiðslu, þ.e. að ekki sé gengið of nærri auðlindum jarðar, meðferð dýra sé skynsamleg o.s.frv.," segir Baldvin og bætir því við að þetta sé í fyrsta sinn sem "Chef's a Field" þáttur sé tekinn upp utan Bandaríkjanna

Baldvin segir þáttinn vera margverðlaunaðan og framleiddan af PB S- sjónvarpsstöðinni. Í áhorfendahópi þáttarins sé mikið af menntuðu fólki sem ferðist mikið og sé í áhrifastöðum í Bandaríkjunum. PBS samanstendur af um 280 sjónvarpsstöðvum vítt og breitt um Bandaríkin og mun hver stöð sýna þáttinn u.þ.b. sex sinnum á næstu fimm árum að sögn Baldvins. "Þá erum við komin með eitthvað um 25-30 milljóna manna áhorf," segir Baldvin.