GEÐRASKANIR barna og unglinga eru viðfangsefni sérstakrar fræðsluviku, sem nú stendur yfir í félagsmiðstöðvum Samfés um land allt og verður af því unnið að sérstöku fræðslustarfi í félagsmiðstöðvum. Vikan ber heitið "Geðveikir dagar!

GEÐRASKANIR barna og unglinga eru viðfangsefni sérstakrar fræðsluviku, sem nú stendur yfir í félagsmiðstöðvum Samfés um land allt og verður af því unnið að sérstöku fræðslustarfi í félagsmiðstöðvum. Vikan ber heitið "Geðveikir dagar!" og er fræðsluverkefnið unnið í samvinnu við barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). Hefur það tvíþættan tilgang, annars vegar að fræða ungmennin almennt um geðraskanir og stuðla þar með að aukinni þekkingu og fordómaleysi og hins vegar að sýna samhygð og samhjálp í verki með því að selja sérstök armbönd til styrktar byggingasjóði BUGL.

"Félagsmiðstöðvunum er í sjálfsvald sett hvernig staðið er að fræðslunni, en á mörgum stöðum er verkefnið unnið í samvinnu við grunnskólana og um allt land fer fram mikið hópastarfi, fyrirlestrar og umræður," segir Hrafnhildur Ástþórsdóttir, verkefnisstjóri hjá Samfés. "Þá verða haldnir fyrirlestrar hér í höfuðborginni og sýndar myndir. Ég veit líka að þriðjudagurinn verður helgaður átröskunum. Þar munum við meðal annars sýna franska heimildarmynd, "Á valdi lystarstols," sem er afar áhrifamikil og síðan verða umræður á eftir.

Félagsmiðstöðvarnar hafa allar fengið geisladiska með miklu fræðsluefni, sem síðan verður notað í hópastarfinu. Aðalatriðið er að fræða unglingana því fræðsla er lykillinn að víðsýni og fordómaleysi. Við viljum einnig vekja samkennd hjá þeim og að hún nái til nærumhverfis þeirra."