Hvaða breytingar hafa átt sér stað innan Evrópusambandsins? Um það er m.a. fjallað í meistaranámi í alþjóðasamskiptum.
Hvaða breytingar hafa átt sér stað innan Evrópusambandsins? Um það er m.a. fjallað í meistaranámi í alþjóðasamskiptum. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í haust hefur göngu sína við stjórnmálafræðiskor í Háskóla Íslands tveggja ára meistaranám í alþjóðasamskiptum, auk þess sem í ráði er að bjóða styttra diplómanám í greininni. Ný lektorsstaða við skorina verður auglýst innan fárra vikna í tengslum við námið.

AÐ LOKNUM ákveðnum skyldunámskeiðum í meistaranáminu, sem m.a. fjalla um utanríkismál Íslands, hlutverk og stjórnun alþjóðastofnana og stjórnun, skipulag og samningatækni í alþjóðasamskiptum, geta nemendur sérhæft sig á fimm sviðum; í fjölmenningu, Evrópufræðum, smáríkjafræðum, opinberri stjórnsýslu og alþjóðaviðskiptum.

Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði og formaður stjórnar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknarseturs um smáríki, segir að markmiðið með náminu sé m.a. að mæta vaxandi þörf í samfélaginu fyrir menntað starfsfólk með þekkingu á alþjóðasamskiptum, enda hafi umfang alþjóðasamskipta vaxið mjög á undanförnum árum, á vegum hins opinbera, samtaka og fyrirtækja.

"Fjöldi íslenskra stúdenta hefur sótt nám á þessu sviði erlendis og svo mun verða áfram. En það er líka mikilvægt að geta boðið upp á námið hér á landi. Þannig svörum við bæði kröfum stúdenta og atvinnulífsins," segir Baldur, "og við munum skipuleggja námið þannig að fólk geti stundað það með starfi".

Baldur segir jafnframt að ekki sé gerð krafa um að fólk sem sæki námið hafi BA-próf í stjórnmálafræði. Námið er skipulagt þannig að fólk með mismunandi háskólamenntun geti stundað það.

Rannsóknir á utanríkismálum efldar

Markmið námsins er einnig að sögn Baldurs að efla rannsóknir á utanríkismálum og alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands. Í tengslum við meistaranámið sé stefnt að því að auglýsa á næstu vikum nýja lektorsstöðu í alþjóðasamskiptum við stjórnmálafræðiskor en hingað til hefur aðeins ein staða í alþjóðastjórnmálum verið við skólann. Einnig nefnir Baldur að námið komi til með að efla framhaldsnám við stjórnmálafræðiskor, en þar er fyrir boðið upp á meistaranám í opinberri stjórnsýslu MPA-nám sem hátt í tvö hundruð manns stunda.

"Við viljum gera námið þverfaglegt og fjölbreytt," segir Baldur. "Nemendur geta einbeitt sér að alþjóðasamskiptum ef þeir vilja en geta einnig valið um fimm sérsvið til að sérhæfa sig nánar og koma að þeirri sérhæfingu m.a. kennarar úr viðskipta- og hagfræðideild, lagadeild og hugvísindadeild, auk erlendra kennara."

Í fyrsta lagi er hægt að sérhæfa sig á sviði fjölmenningar og læra um áhrif menningar og trúarbragða í alþjóðasamskiptum. Þar verður fjallað um mismunandi menningarheima og samþættingu stjórnmála og trúmála. Magnús Þorkell Bernharðsson, lektor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College í Massachusetts í Bandaríkjunum, mun kenna námskeiðin sem falla undir þetta svið.

Í öðru lagi geta nemendur sérhæft sig í Evrópufræðum og lært um áhrif og stöðu ríkja í Evrópusamrunanum. Þar er m.a. boðið upp á námskeið sem fjalla um þær breytingar sem hafa verið að eiga sér stað innan Evrópusambandsins og Evrópuvæðingu, þ.e. áhrif Evrópusamrunans á stjórnmál og stjórnsýslu í EES-ríkjunum.

Þriðji valmöguleikinn er að leggja áherslu á smáríkjafræði þar sem fjallað er um stöðu smáríkja í alþjóðasamskiptum. Mun Baldur sjá um þau námskeið. Verður þar m.a. fjallað um Norðurlöndin, smáríki í alþjóðakerfinu og smáríki í Evrópu, veikleika þeirra stöðu og áhrif. Hluti námsins verður á ensku og opnar það möguleika fyrir erlenda stúdenta að sækja námið en fjöldi erlendra stúdenta hefur sótt námskeið um smáríki sem kennt hefur verið í BA-námi við stjórnmálafræðiskor undanfarin ár.

Opinber stjórnsýsla er fjórði valmöguleikinn. Þar er fjallað um sérstöðu opinbers rekstrar og lagaumhverfi hans Mikið af alþjóðasamskiptum tengist hinu opinbera beint eða og beint og þekking á rekstri, lögum og reglugerðum því hagnýtt fyrir þá sem starfa að alþjóðasamskiptum. Í fimmta og síðasta lagi geta nemendur í meistaranáminu sérhæft sig í alþjóðaviðskiptum sem boðið er upp á í samstarfi við viðskipta- og hagfræðideild. Þar er m.a. fjallað um alþjóðamarkaðssetningu og atvinnuvegi ríkja.

Baldur segir að einnig sé í ráði að bjóða 15 eininga diplómanám í alþjóðasamskiptum við stjórnmálafræðiskor fyrir þá sem vilja taka nokkur fög en ekki endilega ljúka meistaranámi.

Deildarmúrar rofnir

Kennarar úr öðrum deildum en félagsvísindadeild munu koma að kennslu í meistaranáminu. Valur Ingimundarson, dósent í sagnfræði, mun t.d. kenna námskeiðið utanríkismál Íslands. "Á námskeiðinu verður farið yfir söguna, utanríkisstefnu Íslands frá seinni heimsstyrjöld fram á þennan dag," segir Valur um námskeiðið. Til að nálgast viðfangsefnið verður unnið út frá kenningum um alþjóðastjórnmál, öryggismál og alþjóðasagnfræði. Sérstaklega verður hugað að samskiptum við Bandaríkin með tilliti til hermála, stjórnmála, menningar- og efnahagsmála og aðildar Íslands að alþjóðasamtökum eins og Sameinuðu þjóðunum og NATO.

Valur segir að í meistaranáminu í alþjóðasamskiptum sé lögð áhersla á þverfaglega nálgun og reynt að rjúfa deildarmúra og m.a. í þeim tilgangi eru fengnir kennarar úr öðrum deildum til að kenna námskeið. "Námið býður mörg tækifæri til samvinnu, tengir stjórnmálafræði og sagnfræði saman og eykur þar með samskipti á milli stjórnmálafræðinga og sagnfræðinga," segir Valur.

En lengra verður seilst því í framtíðinni er gert ráð fyrir að erlendir kennarar taki að sér námskeið á ákveðnum sviðum, auk gestafyrirlesara í samráði við utanríkisráðuneytið. Þar er samankomin mikil reynsla í alþjóðasamskiptum, gerð alþjóðasamninga og ýmsu því sem snýr að þessu fag- og fræðasviði og því mikilvægt að geta fengið ráð og aðstoð þaðan," segir Baldur.

Bæklingur með efni meistaranámsins verður gefinn út í lok mánaðarins og fljótlega verður hægt að nálgast upplýsingar um námið inni á vef Háskóla Íslands. Þangað til eru áhugasamir beðnir að snúa sér til Margrétar S. Björnsdóttur, forstöðumanns Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og umsjónarmanns alþjóðasamskiptanámsins, msb@hi.is.