GRÆNLENSKIR bændur fá aðstoð íslensku Bændasamtakanna við kynbótaskýrsluhald um sauðfé sitt. Er þetta m.a. unnið í samstarfi við grænlensku landstjórnina. Hér á landi er notað skýrsluhaldsforrit sem í eru nú upplýsingar um 300 þúsund fjár.

GRÆNLENSKIR bændur fá aðstoð íslensku Bændasamtakanna við kynbótaskýrsluhald um sauðfé sitt. Er þetta m.a. unnið í samstarfi við grænlensku landstjórnina. Hér á landi er notað skýrsluhaldsforrit sem í eru nú upplýsingar um 300 þúsund fjár. Um 10-20 þúsund bætast við með grænlenska fénu.

Í forritið, sem hefur verið notað og þróað hér á landi um árabil, eru skráðir ákveðnir þættir sem ákvarða hvort ær er góð til undaneldis eða ekki, t.d. hversu marglembd hún er og hver fitusöfnun er. Grænlensku bændurnir munu greiða hóflegt gjald fyrir þjónustuna, segir Sigurgeir Þorgeirsson framkvæmdastjóri Bændasamtakanna. Nokkrir grænlenskir bændur komu í heimsókn til Íslands fyrir skömmu m.a. til að kynna sér kynbótaskráningu fjár.

Grænlenskt sauðfé er að stofninum til íslenskt enda var tvisvar sinnum flutt fé héðan til Grænlands í upphafi 20. aldar, segir Sigurgeir.