Dennis Bergkamp fagnar fyrsta marki Arsenal í 5:1-sigri liðsins gegn Crystal Palace en Thierry Henry fagnar markinu á meðan Gabor Kiraly markvörður Palace stendur á fætur.
Dennis Bergkamp fagnar fyrsta marki Arsenal í 5:1-sigri liðsins gegn Crystal Palace en Thierry Henry fagnar markinu á meðan Gabor Kiraly markvörður Palace stendur á fætur. — Reuters
ARSENAL setti Englandsmet í gærkvöldi er liðið lék á móti Crystal Palace á Highbury í úrvalsdeildinni og vann öruggan sigur, 5:1.

ARSENAL setti Englandsmet í gærkvöldi er liðið lék á móti Crystal Palace á Highbury í úrvalsdeildinni og vann öruggan sigur, 5:1. Arsenal tefldi fram sextán útlendingum í liði sínu og er það í fyrsta skipti í 119 ára sögu efstu deildarkeppninnar á Englandi, þar sem ekki er Englendingur í leikmannahópi liðs sem er að keppa um Englandsmeistaratitilinn.

Arsenal er á ný tveimur stigum á eftir Manchester United eftir stórsigurinn gegn Crystal Palace. Yfirburðir Arsenal voru miklir í leiknum og skoraði Thierry Henry tvö mörk í leiknum en þeir Dennis Bergkamp, Jose Antonio Reyes og Patrick Vieira skoruðu einnig fyrir Arsenal. Enski landsliðsmaðurinn Andy Johnson skoraði eina mark Palace úr vítaspyrnu. Chelsea er efst í deildinni með 68 stig, Man. Utd. 59 stig og Arsenal 57 stig.

Í sextán manna leikmannahópi Arsenal sem mætti til leiks voru sex Frakkar, þrír Spánverjar, tveir Hollendingar, einn Kamerúnmaður, einn Þjóðverji, einn leikmaður frá Fílabeinsströndinni, einn Brasilíumaður og einn Svisslendingur. Ensku landsliðsmennirnir Ashley Cole og Sol Campbell voru ekki með, annar veikur og hinn meiddur. Þá var hinn ungi Justin Hoyte ekki með að þessu sinni og Arsenal hefur lánað Jermaine Pennant til Birmingham. Ryan Smith, táningur, og þriðji markvörðurinn, Stuart Taylor, voru ekki í hópnum.

Þess má geta að það var Chelsea sem tefldi fyrst liða fram byrjunarliði, sem enginn Englandingur var í. Það var annan dag jóla 1999, en þá sátu fjórir Englendingar á varamannabekknum - Jody Morris, Jon Harley, John Terry og Mark Nicholls.