TILGANGUR stjórnarskrárinnar er meðal annars að vernda borgarana fyrir ríkisvaldinu, sagði Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í gær.

TILGANGUR stjórnarskrárinnar er meðal annars að vernda borgarana fyrir ríkisvaldinu, sagði Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í gær. "Vegna þess á stjórnarskráin að vera svo einföld, herra forseti, að ég vil að sú nefnd sem um þetta fjallar fái til sín fólk með greindarvísitölu 90 eða minna og láti það lesa tillögurnar, vita hvort það hafi skilið það sem um var fjallað og vita hvort sá skilningur er réttur. Ef ekki þá þarf að orða stjórnarskrána enn einfaldar því henni er ætlað að vernda þetta fólk ásamt öðru," sagði Pétur. "Það þarf að taka burt öll tóm ákvæði í stjórnarskránni og tala mannamál. Ekki lögfræðingamál."

Pétur lét þessi orð falla þegar hann talaði fyrir frumvarpi um breytingu á stjórnarskrá Íslands. Hann vill að stjórnarskrárnefnd fjalli um frumvarpið og efnisatriði þess verði síðan samþykkt þegar Alþingi lýkur störfum vorið 2007 fyrir kosningar. Slíta þurfi þingi og ganga til kosninga samþykki Alþingi stjórnarskrárbreytingar.

Eins og komið hefur fram felur frumvarpið í sér að embætti forseta Íslands verði lagt niður. Pétur sagði að frumvarpinu væri ekki beint gegn neinni persónu því miðað væri við að það tæki gildi þegar kjörtímabil núverandi forseta væri liðið.

"Með þessu frumvarpi er leitast við að gera stjórnarskrána skýrari og taka út ákvæði sem enga þýðingu hafa auk þess að leggja niður forsetaembættið. Æskilegt væri við endurskoðun á stjórnarskránni að taka meira tillit til þrískiptingar valdsins og hafa sérstaka umfjöllun um hvern þátt fyrir sig, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald," sagði Pétur Blöndal.

Margvíslegt hlutverk forseta

"Nú e r það hins vegar svo að forseti Íslands hefur margvíslegt stjórnskipulegt hlutverk og töluverð völd, einkum þegar í harðbakkann slær. En dæmi undanfarinna missera, einkum þau sem hafa skapast af hálfu liðsmanna í Sjálfstæðisflokknum, sýna að það er ekki vanþörf á að ræða þetta hlutverk," sagði Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.

Mörður var með útprentanir af ellefu stjórnarskrám með sér og fór í grófum dráttum yfir verkaskiptingu forseta, þings og dómstóla í nokkrum ríkjum. Alls staðar væri forseti sem væri ýmist þjóðkjörinn eins og á Íslandi eða þingkjörinn (í fimm ríkjum). Forsetinn væri misáhrifamikill en hefði veruleg völd í fjórum til fimm ríkjum. Annars staðar minni og þá svipuð og hér. Hann sló varnagla við þessum skilningi sínum því oft skýrði textinn ekki raunveruleg völd forseta.