Rannveig Guðnadóttir
Rannveig Guðnadóttir
Rannveig Guðnadóttir fjallar um málefni aldraðra: "Faglegur metnaður og fagleg þekking hefur þróast jafnt og þétt síðustu áratugina."

GREIN Sigríðar I. Daníelsdóttur í Morgunblaðinu 28. janúar sl. vekur fólk til umhugsunar um málefni aldraðra.

Viðhorfin og hugmyndafræðin um þjónustu við aldraða hefur verið að þróast síðustu þrjátíu árin í átt að betri þjónustu miðað við óskir og þarfir aldraðra.

Sigríður bendir réttilega á að ekki er eingöngu gott að byggja hjúkrunarheimili ef það er á kostnað þjónustu við aldraða í heimahúsum.

Markvisst er stefnt í þá átt að auka þjónustuna svo að aldraðir geti búið á eigin heimili eins lengi og mögulegt er og lifað því lífi er þeir hafa skapað sér á langri ævi.

Þessi stefna hefur leitt af sér fjölþætta heimaþjónustu, sérhæfða sjúkrahúsþjónustu og nútímaleg hjúkrunarheimili er taka mið af óskum og þörfum hvers og eins.

Vissulega vantar töluvert upp á að öldrunarþjónustan á hinum ýmsu stigum anni þjónustunni. Aldraðir einstaklingar eru á biðlistum eftir þjónustuúrræðum. Framkvæmdir stranda á fjármagni og að hluta til af skorti á starfsfólki til starfa. Fjármagn hamlar til dæmis því að ekki er hægt að bjóða öllum upp á einbýli á hjúkrunarheimilum sem þess óska. Einhugur er þó um mikilvægi þess hjá þeim er stjórna og starfa við hjúkrunarheimilin. Í lögum frá 1999 um málefni aldraðra er tekið fram: "Við hönnun skal þess sérstaklega gætt að stofnunin sé heimilisleg og að sem flestir íbúar hafi eigið herbergi."

Ekki skortir viljann, viðhorfin eða hugmyndafræðina til að bæta hag aldraðra hjá þeim fjölmörgu er koma að öldrunarmálum. Ekki skortir heldur lagasetningar (lög um málefni aldraðra 1999) eða markmiðssetningar samanber stefnumótun í málefnum aldraðra til ársins 2015 gerð árið 2003 af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Að virða rétt aldraðra til sjálfræðis og einkalífs inni á hjúkrunarheimili er mikilvægt verkefni. Þetta mikilvæga verkefni gerir störfin áhugaverð og ábyrgðarfull í hjörtum þeirra er starfa á hjúkrunarheimilum.

Starfsfólk er að glíma hverja stund í starfi sínu við siðfræðileg álitamál.

Að öll þjónusta, umönnun og hjúkrun sé framkvæmd með virðingu og tillitssemi fyrir einstaklingsþörfum og venjum hvers og eins er samofin daglegum störfum á hjúkrunarheimili og í öldrunarþjónustunni.

Að varðveita einstaklingsfrelsið getur verið flókið í framkvæmd á stóru heimili þar sem hver og einn vill geta athafnað sig frjálst að eigin vali. Þeir sem eru aldraðir í dag þekktu flestir sambýli fólks til sveita þar sem þurfti að taka fullt tillit til annarra, en um leið naut fólk samfélags við annað fólk.

Einmanaleiki og einangrun er oft það sem hinn aldraði býr við þegar heilsan brestur og getan til að taka þátt í hinu daglega lífi er orðin takmörkuð.

Jafnvel á stórum heimilum í dag komast ekki allir í sturtuna á sama tíma. Að þurfa aðstoð eins eða tveggja starfsmanna til að komast í sturtu eða sinna öðrum athöfnum dagsins kostar skipulag svo framkvæmanlegt sé.

Við að búa á hjúkrunarheimili telur Sigríður að fólk sé "nánast rænt borgaralegurm réttindum sínum og sjálfræði".

Það að réttur hins aldraða sem sjúklings sé virtur á hjúkrunarheimili skapar þær aðstæður að hjúkrunarheimili verður millistig á milli heimilis og spítala.

Þegar hjúkrunarheimili er valið sem besti kostur í stöðunni er yfirleitt búið að fullreyna aðrar leiðir er öldrunarþjónustan býður upp. Þar fyrir utan eru aðstandendur og vinir yfirleitt búnir að leggja mikið á sig til styðja við hinn aldraða einstakling á hans eigin heimili.

Fjármagn skortir í rekstur hjúkrunarheimila til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið.

Íslensk heimili þekkja vel og sérstaklega sú kynslóð sem nú er öldruð, hvernig nýta þarf vel það sem til er. Reynt er að spila vel úr því fjármagni sem ætlað er til reksturs hjúkrunarheimila til að veita eins góða þjónustu og mögulegt er.

Það sem ekki kostar mikla peninga en veitt er örlátlega á hjúkrunarheimilum er mannleg hjartahlýja, tillitssemi og virðing fyrir þeim öldruðu.

Efla þarf enn frekar fræðslu og þjálfun starfsmanna og kenna þau góðu siðfræðilegu viðhorf er skipta svo miklu máli við þjónustu og umönnun aldraðra.

Faglegur metnaður og fagleg þekking hefur þróast jafnt og þétt síðustu áratugina. Reynt er að standa vel að þjónusta við aldraða einstaklinga á sama hátt og þjónustu við aðra aldurshópa samfélagsins. Aldraðir eru vaxandi hópur sem gerir kröfur um faglega vandaða þjónustu.

Vonandi er það löngu liðin tíð að neytendur öldrunarþjónustunnar finnist þeir vera "ómagar" eins og Sigríði finnst einkenna hugsunarhátt stjórnvalda "sem endurspeglist í lausnum stjórnvalda um að vista gamalt fólk á stofnunum".

Hinir öldruðu þekkja betur það hlutverk á langri ævi að vera veitendur í lífinu en að þurfa að vera þiggjendur. Flestum tekst þó að skipta um hlutverk á síðasta tímabili ævinnar og leyfa sér að þiggja með reisn þá aðstoð sem þörf er fyrir hverju sinni.

Örnólfur Thorlacius sýnir vel í grein sinni Morgunblaðinu 5. febrúar sl. hvernig honum ásamt fjölda annara aldraðra tekst að lifa við breyttar aðstæður með reisn og skilningi.

Rannveig Guðnadóttir fjallar um málefni aldraðra