ÍR-ingar hafa sett upp varnarvegg gegn ÍBV, en þeir fögnuðu sigri og leika í fyrsta skipti til úrslita í bikarkeppninni síðan 1979.
ÍR-ingar hafa sett upp varnarvegg gegn ÍBV, en þeir fögnuðu sigri og leika í fyrsta skipti til úrslita í bikarkeppninni síðan 1979. — Morgunblaðið/Golli
FLEST bendir til þess að deildaskipt Íslandsmót í handknattleik karla verði tekið upp að nýju frá og með haustinu 2006. Næsta vetur, 2005-2006, leika líklega öll lið í meistaraflokki í einni deild og þar yrði þá leikið um sæti í nýrri 1.

FLEST bendir til þess að deildaskipt Íslandsmót í handknattleik karla verði tekið upp að nýju frá og með haustinu 2006. Næsta vetur, 2005-2006, leika líklega öll lið í meistaraflokki í einni deild og þar yrði þá leikið um sæti í nýrri 1. deild, með 8 eða 10 liðum. Mestar líkur virðast á því að úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn, sem háð hefur verið að lokinni deildakeppni frá 1990, verði lögð af.

Niðurstaða formannafundar, sem handknattleiksforystan hélt á laugardaginn, var á þann veg að skipaður var vinnuhópur um þetta mál sem á að skila tillögum innan tveggja vikna en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kom fram á fundinum að vilji formanna félaganna beinist í þessa átt.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði við Morgunblaðið í gær að á fundinum hefði komið fram almennur vilji fyrir breytingum. "Það er alveg ljóst, miðað við þennan fund, að það verður farið í breytingar en sanngirnissjónarmiðið var ofarlega á blaði hjá flestum - það þótti ekki hægt að fara út í þessa deildaskiptingu nema með því að nota næsta vetur til að spila um sætin. Það kemur síðan í ljós innan skamms hvernig þessi vinnuhópur leggur málið upp fyrir ársþing sambandsins í vor," sagði Einar.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var almennur vilji fyrir því hjá forráðamönnum félaganna að leggja af úrslitakeppnina og krýna það lið Íslandsmeistara sem fær flest stig í 1. deildinni. Í skoðanakönnun sem HSÍ gerði meðal stjórnarmanna og þjálfara liðanna fyrir skömmu voru hins vegar um 70 prósent þátttakenda þeirrar skoðunar að halda ætti úrslitakeppninni áfram í einhverri mynd. Inn í umræðuna hefur einnig komið danska fyrirkomulagið þar sem fjögur efstu liðin leika til úrslita um meistaratitilinn.