UNDIRRITAÐIR hafa verið viðaukasamningar vegna stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga. Voru það Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra sem undirrituðu samningana fyrir hönd íslenska ríkisins.

UNDIRRITAÐIR hafa verið viðaukasamningar vegna stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga. Voru það Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra sem undirrituðu samningana fyrir hönd íslenska ríkisins. Samningarnir kveða á um stækkun Norðuráls í allt að 260.000 tonn á ári. Varða samningarnir ýmis atriði, t.d. lóðaleigu og hafnarmál, vegna þeirra framkvæmda sem nú standa yfir og framundan eru.

Um er að ræða fjóra mismunandi viðaukasamninga; lóðasamning, fjárfestingasamning, leigusamning og hafnarsamning. Eru samningsaðilar iðnaðar- og viðskitparáðuneytið, fjármálaráðuneytið, Century Aluminium og Norðurál ehf. fyrir hönd álversins, Hvalfjarðarstrandahreppur og Skilmannahreppur fyrir hönd sveitarfélaga á svæðinu auk Faxaflóahafna.

Andrés Svanbjörnsson hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu segir viðaukasamningana sambærilega við samninga sem þegar liggi fyrir. Forsendur séu að einhverju leyti breyttar vegna stækkunarinnar og með viðaukanum sé verið að breyta samningunum í hlutfalli við það. T.d. hækki lóðaleiga vegna stærri lóðar og þar fram eftir götunum.