ÍSLENSKA piltalandsliðið, skipað leikmönnum 16 ára og yngri, lenti í gríðarlega erfiðum riðli í Evrópukeppninni, A-deildinni, en dregið var um helgina. Íslenska liðið er með Rússum, Grikkjum og Króötum í riðli, en keppnin fer fram í Leon á Spáni í...

ÍSLENSKA piltalandsliðið, skipað leikmönnum 16 ára og yngri, lenti í gríðarlega erfiðum riðli í Evrópukeppninni, A-deildinni, en dregið var um helgina. Íslenska liðið er með Rússum, Grikkjum og Króötum í riðli, en keppnin fer fram í Leon á Spáni í sumar.

Ísland var eina norðurlandaþjóðin sem átti fulltrúa í A-deild Evrópumótanna, en dregið var í þremur aldursflokkum karla og kvenna um helgina.

U-16 ára lið kvenna var í efsta styrkleikaflokki í B-deildinni enda var liðið hársbreidd frá því í sumar að komast í A-deildina. Íslensku stúlkurnar leika með Svíum, Slóvenum og Hollendingum í riðli og verður riðillinn leikinn í Eistlandi. Íslensku piltarnir, 18 ára og yngri, spila í Slóveníu í sumar og verða í riðli með Finnum, Svíum og Makedóníu. Stúlkurnar, 18 ára og yngri, leika í Bosníu og eru í riðli með Hvíta-Rússlandi, Rússlandi og Lúxemborg.

Elsta unglingaliðið, 20 ára og yngri karlar, leikur í Búlgaríu og er með Póllandi, Slóveníu, Finnlandi, Georgíu og Írlandi í riðli.