Rósey Sigríður Helgadóttir fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 28. nóvember 1921. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi mánudaginn 7. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Helgi Sigurðsson formaður, f. 27. júní 1884 í Vatnsdal í Súgandafirði, d. 23. nóvember 1955, og Sigrún Kristmundsdóttir húsfreyja, f. 25. maí 1892 á Meiribakka í Skálavík ytri, d. 24. mars 1974. Systkini Róseyjar voru Sigurður Helgason, f. 16. júlí 1912, d. 12. janúar 1982, Kristín Helgadóttir, f. 16. september 1914, d. 29. ágúst 2002, og Páll Hannesson, f. 1. október 1918, d. 25. nóvember 1980.

Eftirlifandi maki Róseyjar er Rafn Kristján Kristjánsson stýrimaður síðar starfsmaður Sindra-stáls, f. 28. júní 1927. Foreldrar hans voru Kristján Kristjánsson skipstjóri, f. 10. júlí 1893 á Ósi í Bolungarvík, d. 16. júní 1958, og Margrét Berentsdóttir, f. 27. desember 1902 í Reykjavík, d. 2. febrúar 1956.

Rósey og Rafn giftust 23. september 1956. Börn þeirra eru: 1) Helgi Rúnar, múrarameistari, f. 22. ágúst 1954, maki Arngunnur R. Jónsdóttir gjaldkeri, f. 15. apríl 1955. 2) Sigríður Svava, garðyrkjufræðingur, f. 22. janúar 1957, maki Pálmi Finnbogason stjórnmálafræðingur, f. 19.maí 1964, dóttir þeirra er Auður Tiya, f. 30. nóvember 2001. 3) Margrét, garðyrkjufræðingur, f. 19. apríl 1959, maki Sæmundur Hólmar Sverrisson framkvæmdastjóri, f. 2. mars 1957, barn þeirra er Sara Hrönn, f. 13. nóvember 1997. Börn Margrétar eru Freyr, f. 11. september 1987, og Thelma Rós, f. 23. ágúst 1988. Barn Sæmundar er Helgi Már, f. 21. janúar 1982. 4) Kristján, trésmiður, f. 19. apríl 1959, maki Íris Ösp Birgisdóttir, f. 26. ágúst 1965, barn þeirra er Rafn Kristján, f. 4. ágúst 1999. Börn Kristjáns eru Kolbrún Marí, f. 31. október 1982, barn Kolbrúnar er Marína, búsett í Noregi, Anton, f. 4. janúar 1983, og Rósey, f. 11. október 1993. Börn Írisar eru Sara, f. 5. júlí 1988, og Sofía, f. 24. mars 1990. 5) Auður, kennari, f. 14. janúar 1963, maki Hreinn Þorkelsson kennari, f. 23. júlí 1959. Börn þeirra eru Atli Rafn, f. 29. janúar 1989, Hlynur, f. 23. ágúst 1994, og Haukur, f. 3. ágúst 1997.

Fyrir átti Rósey tvö börn: Kristján Ásgeir Ásgeirsson húsasmíðameistara, f. 5. júní 1943, d. 2. janúar 1983, eftirlifandi maki Sigrún Arnbjarnardóttir, f. 9. september 1942. Börn þeirra eru Arna Victoría flugfreyja, f. 15. mars 1962, maki Ingvar Berg Steinarsson flugmaður, f. 6. apríl 1965; Ásgeir Ísak, f. 26. ágúst 1964. Sigrún Bernódusdóttir, f. 10. desember 1950, d. 25. apríl 1980, eftirlifandi maki er Þorsteinn Guðbjartsson, f. 28. mars 1942. Börn þeirra eru Hermann Björn múrarameistari, f. 6. september 1969, maki Jenný Árnadóttir bankastarfsmaður. Helgi sölumaður, f. 28. ágúst 1970, maki Lára Huld Björnsdóttir nemi. Elín Kristín, f. 7. maí 1968, maki Ove Nilson, f. 3. febrúar 1970.

Rósey ólst upp fyrstu ár ævi sinnar á Suðureyri við Súgandafjörð. Um tvítugt fluttist hún til Ísafjarðar og nam við Húsmæðraskólann á Ísafirði og starfaði um skeið á Fjórðungssjúkrahúsinu. Leið hennar lá suður til Reykjavíkur þar sem hún gerðist þerna á strandskipinu Esju og starfaði síðar sem saumakona hjá Sjóklæðagerðinni. Lengstan hluta starfsævi sinnar vann Rósey ýmis störf á Hótel Loftleiðum auk þess sem hún rak stórt heimili og sinnti húsmóðurstörfum. Rósey sat um hríð í varastjórn Félags starfsfólks veitingahúsa. Hún hafði gaman af taflmennsku og var ein fárra kvenna félagi í Taflfélagi Reykjavíkur.

Útför Róseyjar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Mín kæra tengdamóðir er fallin frá, eftir glímu við heilsubrest sitt síðasta ár. Hún var annars hraust allt sitt líf og aldrei leið hún skort, en þó var lífið enginn vangadans á hefluðum gólfborðum. Rósey eignaðist tvö börn fyrir hjónaband, sem hún kom ungum í fóstur. Hún missti þau svo bæði á besta aldri úr krabbameini. Yngsti sonurinn var svo nær horfinn henni fyrir ellefu árum, en lánið lék þá við okkur öll. Elskulegum eiginmanni sínum, Rafni Kristjáni, giftist Rósey 35 ára gömul og átti með honum fimm yndisleg börn. Þar blæða nú dýpstu sárin; sár sem aldrei gróa, en lærist að lifa með. Megi þau finna frið í hjarta við yl minninganna.

Rósey átti gott og létt skap, sem mótaði lífsviðhorf hennar, sem einkenndist af hlýju og umhyggju, æðruleysi og rósemi við fjölskyldu sína. Dómhörð gat hún þó verið og ekki laust við að hún brygði fyrir sig blótsyrði til áhersluauka, einkum ef hallaði á hennar nánustu. Hún var sístarfandi, bæði heima hjá sér og þegar hún kom í heimsókn til barnanna sinna. Heimilishaldið var hennar ær og kýr og hún vildi heldur brjóta saman þvott og raða í skápa eða vaska upp til að létta undir með heimilinu. Hún þoldi ekki deilur og illindi hún Rósey litla, eins og tengdapabbi kallaði hana. Alltaf reyndi hún að bera klæði á vopn ef systkinunum varð sundurorða og einatt tilbúin að hlusta á vandmál og leggja inn gott orð til lausnar. Það var stutt í hláturinn og brosið. Jafnvel áfallið fyrir ári síðan, sem hamlaði mjög hreyfi- og ferðagetu hennar, dró ekki úr glettni og gleði hennar þegar hún hitti fólk. Ég veit hún bölvaði í hljóði og í einrúmi, en hún var svo mikil félagsvera, gladdist svo innilega við heimsóknir að hún ýtti sínum vandræðum frá sér eins og hverju öðru fánýti til þess að njóta gestkomunnar. Barnabörnunum var hún ástrík amma og ófáum molanum laumaði hún á litla tungu. Hún var óspör á að ljá börnum sínum kraftana við barnapössun, þegar borgarsollurinn lokkaði þau út á lífið. Hún var líka haldin ólæknandi forvitni og kunni þá list að spyrja spjörunum úr. Því höfum við tengdabörnin öll kynnst, enda erfist þessi eiginleiki mjög sterkt frá henni í kvenlegginn!

Það sé ég fyrir mér að þegar hún verður búin að jafna sig eftir búferlaflutningana, sitji hún efra og reki garnir úr englum á báðar hendur, með bros á vör og Löwenbräu í glasi. Þá fer hún örugglega að huga að því við Gabríel að raða húsgögnunum upp á nýtt og segja leikurunum í bíómyndunum til og ávíta þá fyrir vitleysurnar sem þeir gera. Það er næsta víst að hún á eftir að taka hring eða tvo; það ku vera bærilegustu golfvellir í Paradís. Ég er þess fullviss að þegar það augnablik nálgast að ég renni í himnahlaðið verði hún búin að hella upp á og kíkja á postulínið hjá Pétri og finna heppilega haldkönnu undir kaffið handa mér. Þá verða fagnaðarfundir.

Hreinn Þorkelsson.

Elsku amma, sem var alltaf svo góð við okkur, er nú búin að kveðja. Hún var alltaf í góðu skapi þegar við hittum hana og var endalaust að gefa okkur eitthvað. Amma vildi alltaf vita hvað við vorum að bauka og vildi að okkur gengi sem best. Hún var svo róleg og saklaus sál. Við þökkum fyrir allan tímann, sem hún gaf okkur með sér, og vonum að henni líði alltaf vel í Paradís.

Atli Rafn, Hlynur og Haukur.

Mig langar með örfáum orðum að minnast mágkonu minnar Róseyjar Helgadóttur.

Ég hef þekkt hana í meira en hálfa öld, eða frá því að Rafn bróðir kynnti mig fyrir henni um miðjan sjötta áratug síðustu aldar. Í allan þennan tíma er mér minnisstætt, hve ánægjulegt og þægilegt var að koma til þeirra í Reykjavík, því oft þarf landsbyggðarfólk til höfuðborgarinnar að leita. Mér er sérstaklega minnisstæð alúð hennar og hjálp við okkur Láru í veikindum drengjanna okkar Ingólfs 1978 og Berents 1992, sem urðu að dvelja langan tíma á sjúkrahúsi í Reykjavík, annar vegna hvítblæðis, hinn vegna mótorhjólaslyss.

Þennan tíma áttum við Lára hauk í horni, þar sem Rósey og Rafn voru. Allt var gert til að létta okkur byrðina þennan erfiða tíma og ekki síst Láru. Hún var allan tímann hjá drengjunum meðan á veikindum þeirra stóð og var þá mikið hjá þeim Rafni og Róseyju.

Það er ómetanlegt að eiga slíka vini, og verður seint eða aldrei að fullu þakkað.

En við Lára minnumst fleira frá kynnum okkar við Róseyju en hjálpsemi hennar og hlýhugar í erfiðleikum okkar. Hún var frábær ferðafélagi, tók yfirleitt öllu með jafnaðargeði, var jákvæð og glaðlynd og vildi gott úr öllu gera. Margar ferðir fórum við saman með börn okkar þegar þau voru ung, og er mér minnisstætt hvað þær tókust allar vel, þó að skiptust á skin og skúrir í veðri þá gerðist það aldrei í samskiptum okkar. Rósey og Lára náðu einstaklega vel saman, svo aldrei bar skugga á, og lá þar að baki einlæg vinátta og gagnkvæm virðing.

Margs fleira er að minnast úr fari þessarar góðu konu, t.d. hafði hún gaman af að tefla og var ágætur skákmaður, en umhyggjan fyrir börnum, bónda og heimili sat alltaf í fyrirrúmi hjá henni. Hún var fórnfús, dugleg og sannur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem nú er að hverfa.

Að lokum viljum við hjónin votta ástvinum og ættingjum Róseyjar okkar dýpstu samúð. Við vitum að minning hennar lifir hjá okkur öllum um ókomin ár.

Lára og Hafsteinn.