Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson fjallar um samgöngubætur: "Á síðari árum hefur álagið á gömlu Oddskarðsgöngin aukist alltof mikið."

FYRIR einu ári bauð Vegagerðin út veggöng undir Almannaskarð sem verða 1,2 km löng án þess að þingmenn Norðausturkjördæmis hefðu áhuga á því að skoða möguleika á 300 m löngum jarðgöngum undir Hólmaháls að loknum framkvæmdum við Almannaskarðsgöng. Verra er að fyrrverandi forsætisráðherra skuli ekki hafa tilkynnt útboð vegganga milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar þegar vitað var að samningar við ALCOA í Bandaríkjunum um byggingu álvers á Reyðarfirði voru á lokastigi. Veggöng úr botni Eskifjarðar sem yrðu 1 til 2 km löng gætu stytt leiðina um 5 til 10 km. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að flýta framkvæmdum við Almannaskarðsgöng, sem enginn sá fyrir, vekur spurningar um hvort Davíð Oddsson hafi tekið þetta mál úr höndum samgönguráðherra. Það var ekki þingmönnum Norðausturkjördæmis að þakka. Sem hálærður lögfræðingur viðurkenndi Davíð í fjölmiðlum að vegirnir upp Almannaskarð og upp úr Berufirði um Öxi, sem liggja í 17% halla, væru ólöglegir samkvæmt stöðlum ESB og sömuleiðis vegirnir í Hvalnes- og Kambanesskriðum, um Breiðdalsheiði, Hólmaháls, upp að Oddskarðsgöngunum og yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar. Áður neitaði samgönguráðherra því að farið yrði í Almannaskarðsgöng á undan Héðinsfjarðargöngum. Í viðtölum viðurkenndi Davíð að ekki væri verjandi hvað samgöngur á Mið-Austurlandi og Suðurfjörðunum væru í miklum ólestri þegar ákveðið var að ráðast í virkjunar- og stóriðjuframkvæmdir á Austfjörðum. Ein hugmynd sem bæjarstjórn Fjarðarbyggðar berst fyrir til að stækka atvinnusvæðið og rjúfa um leið einangrun stóra Fjórðungssjúkrahússins er að gerð verði tvíbreið jarðgöng í stað gömlu Oddskarðsganganna vegna aukinna fiskflutninga frá Neskaupstað til Seyðisfjarðar. Á síðari árum hefur álagið á gömlu Oddskarðsgöngin aukist alltof mikið. Héðan af kemur ekki til greina að næstu jarðgöng á landsbyggðinni verði einbreið með útskotum. Þau myndu bjóða mannslífum birginn og skapa vandræði ef neyðartilfelli koma upp. Fyrir nokkrum árum var á það bent að minnst þrenn jarðgöng á Austurlandi yrði að setja í forgangsröð til þess að stækkun Fjarðabyggðar í eitt atvinnu- og þjónustusvæði yrði að veruleika. Hvað gerðist svo? Reynt hefur verið með útboði Héðinsfjarðarganga að afskrifa fyrir fullt og allt öll veggöng á Mið-Austurlandi og Suðurfjörðunum undir því yfirskini að íslenzka ríkið hefði ekki efni á því að fjármagna þau. Vegna óvissuatriða aukast líkur á því að hætt verði við Héðinsfjarðargöng fram að næstu alþingiskosningum eftir að tilboðin, sem átti að opna í útboðið, fóru langt yfir kostnaðaráætlun. Fyrsta skrefið til að bæta samgöngur í þjóðvegaleið nr. eitt hefur nú verið stigið með vinnu við Almannaskarðs- og Fáskrúðsfjarðargöngin. Án Mjóafjarðarganga eiga fiskflutningar, sem fara við mjög erfiðar aðstæður í gegnum Oddskarðsgöngin frá Neskaupstað til Seyðisfjarðar, ekkert erindi inn á þjóðvegina. Til eru alltof mörg dæmi um að flutningabílar á leið frá Eskifirði og Neskaupstað hafi lokað inni í Oddskarðsgöngunum fólksbíla sem komast fyrir í útskotunum. Nú liggur á að framkvæmdum við veggöng milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar verði flýtt áður en vinnu við Almannaskarðsgöng lýkur. Fyrir þessu er þingmönnum Norðausturkjördæmis ekki treystandi. Þarna verður forsætisráðherra að grípa inn í. Mér verður enginn hlátur í huga ef samgönguráðherra hleypur í fjölmiðla til að verja 12 milljarða kr. fjáraustur í Héðinsfjarðargöng og lýsir því yfir um leið að íslenzka ríkið hafi ekki efni á því að fjármagna 300 metra löng veggöng undir Hólmaháls. Tvíbreið veggöng undir 200 m.y.s. milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar og milli Vopnafjarðar og Héraðs verða næsta forgangsverkefni að loknum framkvæmdum við Fáskrúðsfjarðargöng. Eina misfellan á hringveginum er Reynisfjall. Þar verða snjóþyngsli oft til vandræða og leiðin upp á fjallið að vestanverðu brött. Skoðum möguleika á veggöngum undir Öxnadalsheiði og neðansjávargöngum undir Berufjörð. Setjum í forgang Dýrafjarðargöng, göng undir Bröttubrekku, Siglufjarðarskarð, Vaðlaheiði, Mjóafjarðargöng og við Ísafjarðardjúp.

Guðmundur Karl Jónsson fjallar um samgöngubætur